sunnudagur, desember 09, 2007

Síðasta matarboðið

Þá er búið að loka fyrir fleiri matarboð hjá okkur áður en að flutt verður frá Bangladess. Í dag er einmitt nákvæmlega ein vika þar til að við höldum af stað og því ekki seinna vænna en að fara að pakka einhverju dóti. Það hefur ekki gefist mikill tími til að pakka enda var nóg um matarboð og undirbúnin fyrir þau í síðustu viku. Við fórum í matarboð til Lena og Thomas, dansks pars sem að býr hérna, og skemmtum okkur vel við að spjalla um hvernig þetta er hérna í Dhaka og hversu eðlilegt það er að fólk fái nóg af að búa hérna eftir 2 ár eða þar um bil. Þetta virðist vera mjög eðlileg einkenni og það eru mjög fáir sem að sleppa við að fá þessi einkenni sem að að mestu eru pirringur á hvernig hlutirnir ganga fyrir sig hérna, hversu erfiðlega gengur að fá hlutina gerða og sérstaklega af að þeir verða að vera réttir og svo er það auðvitað þetta endalausa vandamál með umferðaröngþveiti. Ég hef ekki algjörlega sloppið við að fá þessi einkenni og hef á stundum verið alvega að gefast upp á því hvernig hlutirnir hérna ganga fyrir sig. Til dæmis get ég ekki með nokkru móti skilið hvernig það getur gerst að maður verði að fara fimm ferðir í bankan til að stofna reikning. Þetta er hins vegar hægt hér þar sem að hvert skiptir sem að maður mætir og heldur að maður nú hafi reddað öllum pappírunum þá vantar enn einhvern snepil sem að þeir bara hreinlega algjörlega gleimdu að nefna síðastliðin þrjú skipti maður var hjá þeim og spurði hvað eftir annað hvort að þetta væri alveg örugglega allt sem að þeir þyrftu. Við gengum í gegnum þetta allt núna í síðustu viku þegar að við vorum að stofna bankareikning fyrir Mily. Þessi pirringur á Dhaka er hins vegar ekki sérstaklega mikill eins og er þar sem að nú er þetta orðið mjög raunverulegt að við erum að flytja í vikunni. Það gerist því það sem að oft á sér stað að þegar að maður sér fyrir endan á hlutunum þá fá þeir ljósrauðan blæ og það sama getur meira að segja gerst fyrir Dhaka. Ég get vel ímyndað mér að eftir nokkra mánuði þá á ég ekkert eftir að skilja í því af hverju við ekki vorum hér lengur.

En aftur að matarboðunum, við vorum með eitt á fimmtudagskvölið þar sem að nokkur úr vinnunni höfðu ekki komist til okkar þegar við vorum með opið hús. Þau voru auðvitað mjög leið yfir því og vildi alveg endilega hitta okkur áður en að við héldum af stað. Við gripum því tækifærið og buðum þeim í mat og fengum því enn fleiri tækifæri til að tala um Bangladess og hvernig við hefðum það með að flytja á brott. Það verður nú að viðurkennast að umræðan var dálítið öðruvísi en í matarboðinu hjá Lena og Thomas en auðvitað ekkert síður skemmtilega. Það er líka mjög gott finnst mér að þurfa að tala um það við samstarfsfólkið hvað er gott við Bangladess en líka hvað mætti bæta. Það er líka gaman að heyra að margir þeir hlutir sem að ég pirra mig yfir er er eitthvað sem að þau upplifa líka. Síðasta matarboðið sem að við héldum var svo fyrir stafsfólkið okkar, þ.e.a.s. Mily, Ruhul, Jondon (garðyrkjumannin) og Iqbal (ferðaskipuleggjaran) og auðvitað fjölskyldur þeirra. Ronny stóð fyrir eldamennskunni í þetta skiptið þar sem að Mily kom auðvitað sem gestur. Hún átti nú reyndar dálítið erfitt með að sætta sig við að halda sig út úr eldhúsinu og leifa okkur að gera hlutina. Við redduðum þessu með að vera mjög vökul og passa okkur á því að hoppa á lappir um leið og eitthvað vantaði svo Mily gæti ekki skotist á undan okkur. Þetta var mjög gott matarboð og við vorum búin að kaupa gjafir handa gestunum. Það er mjög gaman að gefa fólki hér gjafir þar sem að það verður alveg rosalega glatt yfir þeim. Sérstaklega var kona Jondon glöð yfir gjöfunum sem að þau fengu og hún brosti svo breitt þegar að hún opnaði pakkan sinn að það var alveg yndislegt að sjá. Allir fóru því glaðir úr boðinu og það var auðvitað fyrir mestu.

Nú býður því bara vika með smá vinnu, pökkun og nokkrum erfiðum kveðjustundum.

Engin ummæli: