þriðjudagur, nóvember 27, 2007

Lestarferð

Síðastliðin föstudag var haldið í lestarferð út fyrir Dhaka. Tilefnið var nú ekkert sérstakt annað en að við vorum með tvo gesti í vinnunni og vildum sýna þeim smá af Bangladess. Þetta passaði líka mjög vel þar sem hvorki ég né Ronny höfum farið í lest í Bangladess fyrr svo við fengum líka að upplifa eitthvað nýtt. Eins og allt annað í Bangladess var það auðvitað alveg heljarinnar upplifun að ferðast með lest hér. Það merkilegasta var að sjá allt það fólk sem að býr og starfar nánast ofan á lestarteinunum. Ég hefði ekki þurft annað en að teigja mig út úr lestinni á ferð til að næla mér í hænu, fisk eða annað góðgæti á leiðinni. Þetta breitist auðvitað mikið þegar að komið er út úr Dhaka en það er samt hægt að sjá að það er búið nánast hvar sem er í þessu blessaða landi og maður sleppur heldur aldrei við umferðaröngþveitið sem að bara getur átt sér stað í Bangladess.
Það er nú ekki hægt að segja annað en að ferði hafi hafist á mjög ókristilegum tíma enda var sólin rétt að rísa yfir sjóndeildarhringin þegar að við fórum á lappir til að ná lestinni. Þrátt fyrir þetta þá voru allir bara nokkuð morgunhressir og allt það athyglisverða sem að kom fyrir sjónir hjálpaði til að halda öllum vakandi. Eftir að hafa notið tveggja tíma lestarferðar var víst tími til komin til að stíga af lestinni. Leiðsögumennirnir okkar tveir voru hins vegar ekki alveg með það á hreynu hvar þetta átti að gerast svo við enduðum á því að fara einni stöð of langt. Þetta hefði auðvitað ekki verið neitt vandamál nema af því að við höfðum þáð hádegisverðarboð hjá einni fjölskyldur í þropinu þar sem að ætlunin var að stoppa. Það var því allt sett í gang með að redda faratálmum til baka í næsta þorp. Ef að það er eitthvað sem að fólk hérna í þessu landi er gott í þá er það einmitt að redda svona hlutum svo eftir sambland af riksah og rútu túrum vorum við komin aftur á rétta slóð.
Við fengum þennan líka díryndis mat hjá tengdafjölskyldu Zilani sem að var með í för. Það var dálítið skrítið að vera gestur þarna þar sem að húsbóndinn var ekki heima og húsmóðirin var auðvitað upptekin í eldhúsinu. Við sátum því bara í stofunni og slöppuðum af þangað til maturinn var framreiddur. Annað sem að ég á líka erfitt með að venjast þegar að ég fer í mat hérna er að það er ætlast til að gestirnir borði fyrst og gestgjafarnir, að minnsta kosti húsmóðirin, vappa í kring og skenkja fyrir mann. Það var því ekki mikið sem að við spjölluðum við gestgjafan en við gátum að minnsta kosti komið því til skila með þessum fáu orðum við kunnum í bengali að maturinn var mjög góður. Við stöldruðum heldur ekki lengi við eftir að við vorum búin að skófla í okkur matnum. Áætlunin fyrir daginn var nefnilega nokkuð ströng þar sem að við höfðum annað matarboð um kvöldið við þurftum að komast í. Það var því rokið á dyr og hoppað upp í fyrstu rútuna sem við fundum á leið til Dhaka. Eftir að hafa verið vakandi í rútunni í nokkra stund og þegar upplifað sex atvik þar sem árekstri var forðað á allra síðust stundu ákvað ég að það væri nú örugglega bara betra fyrir mig að loka augunum og sofa afganginn af leiðinni heim. Við komumst sem betur fer öll heil á höldnu til Dhaka og rúna var meira að segja líka enn í heilu lagi, bara nokkrar fleiri skrámur á henni en innan um allar hinar skrámurnar þá tók nú engin eftir því. Þetta var hins vegar endirinn á því ævintýrinu og við heldum í rólegheitum í matarboð kvöldsins þar sem við enn og aftur fengum mjög góðan mat og vorum öll leist út með hinum fínust gjöfum.

Engin ummæli: