Eins og altaf þegar við komum heim eftir að hafa verið lengi í burtu þá hafa einhver dýr hreiðrað um sig í íbúðinni á meðan. Þessi dýr koma líka aldrei fram í dagsljósi svo við getum ekki treyst á Mili til að redda þessu fyrir okkur en þurfum að standa í þessu sjálf. Í fyrrakvöld voru það tveir kakkalakkar sem voru á dagskránni. Ég get nú svo sem ekki sagt að ég geri mikið þegar að ég kem auga á þessi dýr annað en að hoppa upp í næsta sófa og hrópa á Ronny. Þegar um kakkalakka er að ræða þá er ég er nú farin að geta að minnsta kosti haldið auga með ferðum kakkalakkanna og svona til að reyna að aðstoða Ronny aðeins við þessar veiðar. Ég var líka búin að sannfæra mig um að kakkalakkarnir hlytu að vera það versta og að það væri ekkert eins ógeðslegt eins og þeir. Ég held það nú reyndar enn að kakkalakkarnir séu eitt af ógeðslegustu dýrunum í heimi en ég er hins vegar meira hrædd við kóngulær. Það var því ekki gaman þegar að ég kom auga á lófastóru kóngulónna sem var að læðast inni í stofu hjá okkur. Ég rak líka upp þetta skaðræðis öskur og hljópu eins lang burt frá óargardýrinu eins og hægt var og let ekki sjá mig aftur fyrr en Ronny var búin að fullvissa mig um að dýrið væri dautt. Þetta var líka ekki allt í gær þar sem að við fundum líka maura í rúminu þegar að við vorum að fara að sofa svo við þurftum auðvitað að fara í stærri aðgerð við að sprauta allt í kringum rúmið og tryggja að engir fleiri maurar væru á ferð. Þetta allt varð til þess að við vorum að fara í rúmið þegar að nánast allir aðrir í Bangladess voru að fara að lappir enda glumdi morgunbænin í eyrum okkar þegar að við vorum að reyna að sofna.
En að öðru núna, það hefur verið mikið í fréttum að undanförnu að það hafi verið gífurleg flóð í Bangladess. Við fylgdumst því sérstaklega vel með landslaginu þegar að við flugum hingað til að reyna að sjá vegsummerki eftir þessi flóð. Það er alveg greinilegt að það hefur verið mjög mikið vatn á ferð hérna þar sem að það er enn mjög mikið vatn út um allt þó að það hafi ekki rignt að neinu ráði núna í nokkrar vikur. Á fluginu inn yfir Bangladess var hægt að sjá helling af bæjum og þorpum sem að rétt stóðu upp úr vatni og það var mikið um þorp þar sem allir vegir til og frá voru annað hvort horfnir eða enn undir vatni. Það er því greinilega enn alveg helling uppbyggingarstarf sem að er eftir hérna í Bangladess eftir flóð sumarsins en það virðist nú vera sem að lífið, að minnsta kosti hér í Dhaka, gangi sinn vanagang.

Engin ummæli:
Skrifa ummæli