Það er nú ekki hægt að státa af því að það sé mikil páskahátíð hérna hjá okkur í Dhaka. Ekki einn einasti guli páskaungi hefur sést. Það telst kannski bara heppilegt þar sem að það greindist fuglaflensa í einhverjum fiðurfénaði hérna í Dhaka fyrir ekki alls löngu. Það verður hins vegar að segja sömu söguna af páskaeggjunum sem ekki er mögulegt að finna. Það verður líka að viðurkennast að Kit-kat er frekar léleg uppbót í páskaeggjaleisinu. Það voru því uppi einhverjar hugmyndir um að reyna að bæta úr þessu með að hafa einhverja alvöru páskamáltíð á morgun. Ég held að niðurstaðan hafi verið sú að elda alvöru heimalagaði hamborgara í tilefni dagsins þar sem að við höfum ekki mjög háar væntingar til þess lambakjöts sem hægt er að fá í borginni.
Ég lifi nú hins vegar alveg af þessa fátæka páskahátíð þar sem að tilhugsunin um tveggja vikna fríið sem bryjar á næsta fimmtudag heldur mér gangandi í gegnum allt eins og er. Janni, vinkona frá Danmörku, er líka að koma á þriðjudaginn svo brátt verður mjög kátt í höllinni enda eru öll kvöld í næstu viku nú þegar full bókuð.
Það er svo mikið að gerast í ferðalögum og heimsóknum næstu vikurnar að þetta er algjört púsluspil. Ég var að reyna að útskýra þetta allt fyrir Mili ráðskonu í fyrradag en það gekk ekki mjög vel. Enda var útskýring mín eitthvað á þessa leið.
Janni kemur á þriðjudaginn, Morten fer til Danmerkur á miðvikudaginn, Janni, ég og Ronny förum til Víetnam í tvær vikur á fimmtudaginn. Þegar við þrjú komum aftur þá verða ég og Ronny í Dhaka um föstudaginn og förum til Danmerkur í þrjár vikur á laugardeginum en Janni fer ekki fyrr en á sunnudaginn.
Ef að einhver skilur haus eða hala á þessu þá tek ég hattinn ofan fyrir ykkur enda er þetta næstu of mikið fyrir mig enda er nóg fyrir mig að vita að ég fer í frí bráðum og síðan beint til Danmerkur að vinna.
laugardagur, apríl 07, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli