Væntingarnar voru auðvitað háar fyrir ferðina til Kína við töldum okkur vera í nokkuð góðu máli þrátt fyrir að hafa gleymt miðanum með heimilisfanginu á hótelinu heima á sófaborðinu í Dhaka. Vindin tók þó snöglega úr seglunum þegar að við komumst að því á flugvellinum að það væri 4 hótel í Beijing með sama nafni og við höfðum auðvitað enga hugmynd um á hvad af þessum 4 hótelum við áttum að halda. Ekki bætti það heldur úr málunum að það er ekki hægt að segja að starfsfólkið í ferðamannaupplýsingunum á flugvellinum í Beijing hafi mikla enskukunnáttu. Þetta reddaðist þó á endanum þar sem að við fundum eina stúlku sem að gat skilið og tala smá ensku og afganginn var síðan hægt að koma til skila á hálfgerðu táknmáli. Við enduðum sem sagt á rétta hótelinu sem að var alveg hið fínasta hótel og ekkert mjög dýrt svo allir voru glaðir þegar þangað var komið.
Daginn eftir átti svo að halda á vit ævintýrana og skoða borgina. Þ.e.a.s. eftir að við höfðum fundið markað þar sem að við gætum náð okkur í hlý föt því það var kalt í Beijing. Þetta tók þó ekki langan tíma og eftir að hafa nælt okkur í úlpur, húfur og vetlinga var ekkert því til fyrirstöðu að halda í gönguferð um borgina. Beijing er mjög fín borg og það er hægt að sjá að það er verið að gera mikið til að hreynsa til fyrir Ólympíuleikana. Það er verið að byggja veggi utan um öll ekki svo fínu hverfin svo að það sé ekki hægt að sjá hin hrörlegu hús þegar að keyrt er framhjá og aðrar eins geðveikar ráðstafanir eru teknar. Eitthvað sem að ég held að aðeins kínverjum gæti dottið í hug að gera. Við sáum líka þær framkvæmdir sem eru í gangi í kringum Ólympíuleikvanginn og þar var allt á fullu. Leikvangurinn eða fuglahreiðrið eins og kínverjar kalla hann lítur út eins og fuglahreiður og sundlaugarhúsið var hins vegar nokkuð undarlegt á að lýta og var eins og það hefði einhverskonar plast húð sem að var blásin upp. Eftir þessa gönguferðina voru fótleggirnir þó orðnir nokkuð kaldir svo við fórum aftur á markað og fjárfestum í síðum ullarnærfötum sem að reyndust mjög vel það sem eftir var ferðarinnar.
Það er auðvitað ekki hægt að koma til Beijing og ekki fara að sjá og labba á Kínamúrnum. Það var því auðvitað gert enda liggur vegurinn ekki nema í klukkustunda fjarlægð frá borginni. Við fórum þetta hins vegar í svona skipulagðri skoðunarferð svo auðvitað tók ferðin 3 tíma þar sem að það þurfti að stoppa í alskonar verksmiðjum þar sem verið var að reyna að selja manni alls konar glyngur og dót. Þetta var hins vegar alveg þess virði þar sem að við komumst á múrinn og gátum labbað um þar og virt þetta ótrúlega mannvirki fyrir okkur. Það er eiginlega ekki hægt að lýsa þessu þar sem að múrinn er svo sem ekkert neitt rosalega hár eða mikilfenglegur. Það er hins vegar staðsetningin á toppi fjallahryggs og tinda og lengd og breidd múrsins sem að er alveg ótrúleg. Mér fannst líka gaman að vera þarna um vetrartíman þar sem að það var hvít snjóslikja yfir öllu og alveg ótrúlegt skygni. Það var síðan stoppað í téhúsi á leiðinni heim úr þessari ferð og það var reyndar fínt þar sem að þá fengum við smá heitt að drekka og smökkuðum mismunandi kínversk té.
Dagurinn var heldur ekki á enda þó að skoðunarferðin væri búin. Við höfðum nefnilega í ferðinni hitt par, maðurinn var frá Singapore og hún frá Shanghai, og þau voru svo vingjarnlega að bjóðast okkur með út að borða um kvöldið til að prófa ekta Peking önd. Auðvitað þáðum við það boð og við heldum á einn af frægu Peking önd veitingastöðunum. Það var þvílíkur lúxsus að hafa þau með okkur þar sem að þau pöntuðu hina ýmsu kínversku smá rétti með öndinni þó að við afþökkuðum reyndar réttinn sem að var með sporðdrekum. Það verður að segjast eins og er að kínverjar borða hina undarlegustu hluti. Þau sýndu okkur líka hvernig átti að borða þetta allt, auðvitað með pinnum. Reyndar var ekki komist hjá því að borða krabbann með höndunum og núna hef ég sem sagt lært að höndla heilan krabba og hvernig á að ná kjötinu innan úr skelinni á svona dýri. Öndin var mjög góð og reyndar allar maturinn og það var líka nóg af honum.
Eftir góðan nætursvefn var síðan haldið á hinn staðinn sem að mig hafði mikið hlakkað til að sjá, það er keisarahöllin eða forboðna borgin eins og hún er kölluð. Gönguferðin þangað tók hins vegar nokkurn tíma þar sem að hún lá um torg hins himneska friðar þar sem grafhýsi Maos er og aðrar mikilvægar kommúnistabyggingar liggja í nágrenninu svo auðvitað þurftum við að eins að virða þetta fyrir okkur. Á endanum komumst við þó inn í forboðnu borgina og þar gátum við virt fyrir okkur öll þessu mjög fallegu hús í kínverskum stíl sem að öll voru máluð og skreitt alveg ótrúlega flott. Það er heldur ekki skrítið að þetta svæði sem kallað borg þar sem að það var alveg ótrúlega mikið að byggingum, höllum og görðum innan borgarmúranna. Við náðum ekki að sjá nema kannski einn fjórða af öllum herlegheitunum á þeim tíma sem við vorum þarna enda alveg endalaust mikið hægt að sjá ekki bara af byggingum heldur líka af þeim munum sem að hafa tilheyrt keisarafjölskyldunni og núna eru til sýnis þarna. Ég var mjög ánægð með að hafa komið þarna og virt þetta allt fyrir mér og að sjá enn eitt merki hinar ótrúlegu menningarsögu sem kínverjar eiga.
Þetta er nú það merkilegasta sem að við aðhöfðumst í Beijing fyrir utan svo að fara aðeins meira á markað og kaupa aðeins meira af dóti. Eins og alltaf þegar að farið er í ferðalag um þennan hluta heimsins þá enda ég alltaf með tvisvar sinnum meiri farangur á leiðinni heim en á leiðinni út. Þetta þýðir hins vegar bara að það safnast upp alveg ótrúlega mikið af hlutum og dóti hérna í Dhaka. Það verður eitthvað ævintýri að koma þessu öllum heim á leið þegar að því kemur.
Jæja, þá held ég að þessi ferðasagan sé á enda. Ég sit veik heima eins og ég er búin að gera undanfarna tvo dage en núna er ég orðin það frísk að ég hef orku til að sita smá fyrir framan tölvuna og skrifa hérna. Núna er hins vegar komin tími fyrir mig að hvíla mig smá.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli