þriðjudagur, janúar 09, 2007

Kuldahrollur

Ég sit fyrir framan tölvuna heima í tveimur buxum, tveimur pörum af sokkum, tveim peysum, dúnvesti, með sjal vafið um höfðið (er ekki með neina húfu hérna í Dhaka) og síðan en ekki síst með sængina vafða utan um mig svo bara hendurnar kíkja út þar sem annars gæti ég ekki skrifað mikið. Það er sem sagt skít kallt hérna í Dhaka eins og er og þar sem að hús hérna eru auðvitað alls ekkert einangruð og hvað þá að það sé hiti í þeim þá er jafn kalt inni og úti, þ.e.a.s. um það bil 15 gráður og 70% rakastig. Ég er búin að reyna að kinda eins og hægt er með öllu sem mér dettur í hug svo núna er kveikt á hverju einasta rafmagnstæki í íbúðinni og að minnsta kosti 40 sprittkerti loga á skrifborðinu mínu. Þetta hjálpar sem sagt ekki sérlega mikið svo ég held að ráð sé að senda bílstjóran á stúfana á morgun til að vinna fyrir laununum sínum… það hlýtur að vera hægt að nálgast rafmagnshitara hérna í borginni þrátt fyrir endalaus verkföll, mótmælaaðgerðir og hergæslu.

Þrátt fyrir grílukertinu á nefinu á mér þá er samt dálítið gaman að sjá hvernig fólk hérna höndlar þetta ástand. Allir á skrifstofunni sitja í ullarpeysum og með trefil vafinn um hausinn. Fólk á götum úti gengur líka um með allskonar sjöl og trefla vafna um sig enda er fólk ekki að fjárfesta í vetrarfatnaði fyrir 1 til 2 mánuði. Það undarlegasta finns mér samt að sjá að flestir ganga um í sandölum og berfættir þrátt fyrir kuldan. Ég hef auðvitað verið að ausa af viskubrunni mínum yfir þetta fólk og sagt því að maður verði að vera í hlýjum sokkum í svona veðri. Svo sem ekki séð að það séu margir sem að hlusta á mig en ég reyni að minnsta kosti mitt besta.

Engin ummæli: