sunnudagur, október 29, 2006

Nepal, hluti I

Það væri nú ráð að skrifa nú um skemmtilega hluta ferðarinnar, þ.e.a.s. dvölina í Nepal. Hvað er svo hægt að segja, yndislegt land, fólk, náttura og hreinlega alveg frábært frí. Það var nú samt náttúran sem að heillaði mig mest. Það var frábært að komast úr flatlendinu hérna í Dhaka og nágrenni og sjá fjöll og firnindi.

Þetta hófst auðvitað allt með því að við leigðum bíl í Kathmandu til að koma okkur þessa 200 km leið til Pokhara þar sem vikunni var eitt. Hugmyndin var svo sem að keyra þetta sjálf og gera smá ævintýri úr þessu en það var hins vegar ekki hægt að leigja bíl án bílstjóra svo einn svoleiðis urðum við að taka með. Við vorum nú svo sem líka fegin að hafa bílstjóra þegar að fór að líða á ferðina og við sáum hversu geðveikur fjallvegur þetta var sem að við vorum að keyra. Það er kannski hægt að ímynda sér hversu slæmt þetta er þegar að það tekur 5 tíma að keyra 200 km. Það var líka greinilegt að það voru mjög strangar reglur um það hvenær ætti að flauta, gefa stefnuljós o.s.frv. til að tryggja að allir á veginum vissu hvað væri í gangi. Þessar reglur litu líka út fyrir að vera mjög nauðsinlegar til að bílarnir sem að komu fyrir hornið vissu við hverju var að búast og til að allt fólkið og börnin sem að gengu og bjuggu í vegkantinum gætu hoppað út í vegkantinn þegar nauðsinlegt var.

Okkur fannst bílstjórinn nokkuð góður og það var líka augljóst að hann var ekkert að taka neina sénsa þegar að hann var að taka fram úr sem að er meira en hægt er að segja um marga aðra sem að voru á ferð þarna. Þrátt fyrir þetta vorum ég og Ronny sammálum um að við þekktum bæði þónokkuð að fólk sem að hefði ekki verið alveg sama um aksturslagið í þessari ferð. Mér datt til dæmis Magga systir í hug þar sem að henni stendur ekki á sama um aksturslag leigubílstjóra í Köben sem að verður nú að segjast eins og er að er draumur í dós í samanburði við það sem að við upplifuðum þarna í Nepal.

Við komumst hins vegar heil á höldnu til Pokhara þar sem að við fengum hið fínast hótelherbergi.

Engin ummæli: