sunnudagur, júní 04, 2006

Nýtt borðstofuborð

Það er komið nýtt borðstofuborð í íbúðina. Það er örugglega ein af ástæðunum fyrir því að ég er ekki búin að skrifa hérna í mjög langan tíma núna. Ég er búin að hafa svo mikið að gera við að leika mér með nýja borðið. Þetta er svo sem ekki borðstofuborð sem að er núna búið að koma fyrir í borðstofunni heldur er þetta billjardborð. Ég verð líka að segja það að það er alveg geðveikt gaman að hafa sitt eigið billjardborð svo það er hægt að spila billjard nákvæmlega þegar manni dettur í hug. Ég hef líka alveg helling af gera núna þar sem að ég þarf núna bæði að æfa mig á gítarinn og að spila billjard.

Svona billjardborð er hins vegar ekkert grín. Í fyrsta lagi þá þarf alveg rosalega mikið pláss fyrir þetta og það var næstum því ekki mögulegt að finna pláss fyrir billjardborðið þó að íbúðin sé 200 fermetrar. Svona borð er líka ekkert smá flykki, þetta vegur 450 kg og þar af vegur steinplatan 350 kg. Það er auðvitað svo mikil þjónusta hérna að hvorki ég né Ronny, sem að ég bý hjá, þurftum að gera handtak til að fá þetta billjardborð sett upp eða hafa áhyggjur af þessum þyngslum. Billjardborðið var afhent 2 tímum eftir að það var keypt og það voru ekki færri en 12 manns sem að voru fengnir til að bera 350 kg steinplötuna upp á 3 hæð.

Ég get nú ekki sagt að ég sé orðin betri í billjard á þessum 5 dögum sem að ég hef haft til að æfa mig. Ég er hins vegar búin að komast að því að ég skít ekki beint svo að það er það fyrsta sem að ég þarf að laga í billjardspili mínu. Eftir það get ég vonandi farið að hugsa um hvernig maður á að hitta kúlurnar til að þær fari þangað sem að ég vil að þær fari.

Engin ummæli: