fimmtudagur, maí 25, 2006

Allir litlu hlutirnir

Það eru allir þessu litlu hlutir sem að virkilega gera það að lífi hérna í Bangladess er eitthvað öðruvísi en bara heim á Íslandi eða í Köben.

Það að þegar ég er á leiðina í vinnuna þá sér maður ekki fólk úti að labba með hundana sína heldur er það að labba með geiturnar og kýrnar sínar. Í morgun var einn maður sem að ég sá líklega að flytja geiturnar sínar á annað tún eða á markaðinn. Hann gekk að minnsta kosti um með um 10 geitur í bandi. Þið getið kannski ímyndað ykkur einhvern sem að viðrar hunda og er með tíu hunda í bandi en það er bara dálítið undarlegra að sjá þetta þegar að verið er úti að ganga með geitur.

Það var líka annað sem að ég sá í morgun sem að fór reyndar virkilega fyrir brjóstið á mér en ég gat svo sem ekki gert neitt. Ég sá umferðarlögreglu sem að var að stjórna umferðinni slá í mann sem að ekur svona hjólaleigubíl. Ég áttaði mig svo sem ekkert á því af hverju löggan var að slá til mannsins en það er bara svo óþægilegt finnst mér að sjá svona hluti og sérstaklega þegar að fólk sem að er í valdastöðum, eins og löggur, gera svona hluti.

Það er líka búið að koma á fót vöggustofu í vinnunni. Ein konan í vinnunni var að koma úr barnseignarfríi og hún tekur stelpuna sína með sér í vinnuna. Þar sem að hún verður hins vegar að vinna vinnuna sína þá hefur hún auðvitað þjónustustúlkuna sína með sér líka. Þjónustustúlkan sér sem sagt um að passa litlu stelpuna á meðan að mamman vinnur. Það er meira að segja verið að setja upp sér herbergi fyrir vöggustofuna. Svo segir fólk að það sé gott að vera með börn í Danmörku, það hlýtur þá að vera algjör lúxus að vera með börn hérna. Þar sem að vöggustofuherbergið er ekki alveg tilbúið þá heldur litla barnið til í herberginu sem að strákurinn sem að snattar og þjónustar okkur öll býr í. Já, ég var kannski heldur ekki búin að minnast á það en hann býr sem sagt á skrifstofunni og það í bókstaflegri merkingu.

Merkilegustu fréttirnar eru hins vegar að nú er komin alvöru Internet tenging til Bangladess. Það er búið að opna fyrir traffík um kapalinn sem að verið var að leggja frá Indlandi og til Bangladess. Það er meira að segja hægt að finna áhrifin af þessu og það er hreinlega hægt að vera á netinu hérna núna án þess að býða eftir að hver einasta síða hlaðist.

Engin ummæli: