föstudagur, maí 12, 2006

Göngutúr

Ég var að koma heim úr enn einum göngutúrnum. Ég er svo sem búin að komast að því að ég er svo sem búin að finna mest allt sem að er athyglisvert hérna í Gulshan (það er nafnið á hverfinu þar sem að ég bý). Mest allt hverfið hérna er mjög svipað og þar sem að þetta er hverfið fyrir nokkuð vel efnað fólk þá er heldur ekki hægt að sjá mjög mikið af almennu lífi í Bangladess. Í dag ákvað ég því að labba aðeins út fyrir Gulshan og kíkja á mannlífið þar.

Áður en að ég komst út úr Gulshan þurfti ég hins vegar að reyna að kaupa mér leið út úr stórum barnahópi. Það voru sem sagt búin að safnast 10-15 krakkar í kringum mig og auðvitað skildi ég ekki orð af því sem að þau sögðu. Það er hins vegar auðvitað auðvelt að geta sér til um hvað þau vilja en þar sem að ég hef auðvitað ekki nóg af smápeningum til að gefa öllum þá varð ég að taka eitthvað annað til ráðs. Sem betur fer var götusali með bás þarna í nágrenninu svo ég fór þangað með krakkahópinn. Þarna gat ég svo fengið götusalan til að gefa krökkunum banana og fyrir þetta borgaði ég 100 taka (100 ISK). Það geðveikasta er að það að borga 100 kr fyrir þessa banana var auðvitað allt of mikið.

Eftir að ég komst út úr Gulshan leið svo sem ekki langur tími þangað til ég var búin að fá leiðsögumenn. Það voru tveir um tuttuguára gamlir strákar sem að töluðu svona allt í lagi ensku. Þeir byrjuðu bara að labba með mér og heldu því áfram þangað til að ég var komin inn í Gulshan aftur. Ég gaf þeim svo sem engan pening fyrir þessa leiðsögn. Þeir báðu ekki um neitt svo ég sá enga ástæðu til að gefa þeim neitt enda hafði ég svo sem ekki beðið um þessa fylg til að byrja með. Það var svo sem ágætt að hafa þessa fylg þar sem að ég hafði greinilega fundið hverfi þar sem að það ég gat séð aðeins meira af því hvernig fólkið hérna í Bangladess lifir. Þarna voru flest húsin gömul og mörg voru bara blikkofar og þröngar götur. Mér fannst mjög gaman að labba um þarna og sjá krakkana vera úti á götu að spila krikket og sjá allar pínulitlu búðirnar og götusalana. Það eina sem að vantaði var bara að geta sest niður á kaffihúsi og horft á mannlífið liðast hjá í smá tíma. Ég geri mér svo sem ekki miklar vonir um að geta gert það. Það er örugglega mjög erfitt að finna kaffihús hérna, að minnsta kosti eitt þar sem að ég á ekki eftir að verða fárveik ef að ég borða eitthvað af því sem að borið er upp á.

Engin ummæli: