sunnudagur, apríl 23, 2006

Óveður

Það voru þrumur, eldingar og haglél hérna áðan. Ég fór út á svalir til að sjá eldingarnar og það er alveg yndislegt að horfa á þetta. Eldingarnar voru reyndar mjög hátt uppi og ég heyrði engar þrumur. Það var hins vegar hægt að sjá eldingarnar dansa eftir himninum og það er líka svo mikið af þeim hérna að himininn lýsist upp á nokkra sekúndna fresti svo ég stóð bara úti og naut sýningarinnar. Ég þarf að fara að finna út úr því hvernig ég get tekið myndir af þessu. Ég er ekki með þrífót með mér svo ég þarf að finna einhvern stað þar sem myndavélin getur staðið.

Ég sendi fyrirspurn um daginn á sendiráð Íslandis í Stokkhólmi sem að annast samskipti Íslands og Bangladess. Mér datt í hug að forvitnast um það hvert ég ætti að snúa mér til að geta kostið í sveitarstjórnarkosningunum. Venjulega í Kaupmannahöfn þá fer ég auðvitað bara í sendiráðið þar og kýs en þar sem í fyrsta lagi að það er ekkert sendiráð hérna og í öðru lagi heldur ekki ræðismannsskrifstofa þá hafði ég ekki hugmynd um hvað ég ætti að gera. Ég fékk svo sem mjög fljótt svar við fyrirspurn minni en ég græddi svo sem ekki mikið á því. Þar sem að það er engin opinber umsýsla fyrir Ísland hérna í Bangladess þá er í rauninni ekki hægt að kjósa hérna heldur. Ég get svo sem farið í hvaða sendiráð eða ræðismannsskrifstofu sem að mér dettur í hug. Mér var bent á að það væri hægt að kjósa í Nýju-Deli á Indlandi svo ef að ég gæti skroppið þangað þá væri þetta ekkert mál en annars væri ekki mikið hægt að gera í þessu máli.

Nú var ég að fá mér einn bjór og þá datt mér í hug að ég var ekki búin að segja frá því hér hversu fljótt ég hætti að geta helt bjórnum mínum í glas þegar að ég fékk þjóna til að gera það fyrir mig. Þannig var mál með vexti að í þessar tvær vikur sem að ég bjó á hótelinum með Michael og Martin þá stunduðum við barinn á efstu hæðinni nokkuð mikið. Það var svo sem heldur ekki mikið annað fyrir okkur að gera svo við sátum í barnum á kvöldin og slöppuðum af. Við fengum okkur líka nokkra bjóra og þjónustustigið í barnum á hótelinum var mjög hátt eins og svo sem á öllum öðrum stöðum hérna. Það þýddi sem sagt að við þurftum aldrei sjálf að hella bjórnum í glösin. Það kom síðan í ljós eftir að ég hafði fengið svona þjónustu í tvær vikur þá gat ég ekki sjálf helt bjórnum mínum áfallalaust í glas, það fór alltaf eitthvað útfyrir. Nú stunda ég svo ekki barinn á hótelinu lengur eða nokkurn annan bar svo nú er ég búin að venjast þessu aftur svo þetta reddast. Mér datt líka annað í hug núna þegar ég fór að nefna þjónustustigið. Ég fór með Minny, það er þjónustustúlkan á heimilinu, að versla í gær. Þetta var svo sem mjög dýr kjörbúð sem að hún verslar í til að vera viss um að fá vörur sem að eru í lagi og sem að veru á nokkuð vestræna vísu. Mér fannst hins vegar alveg yndislegt að maður vigtaði ekki sjálfur ávextina og grænmetið. Þetta rétti maður auðvitað bara drengnum sem að stóð við vigtina og sá um þetta fyri mann. Það sama var líka tilfellið við að taka upp úr körfunni við kassan, setja í poka og bera út í bíl. Þetta var allt gert fyrir okkur svo það verður að minnsta kosti að segjast að ég held að mér eigi aldrei aftur eftir að finnast þjónustan í nokkuri verslun á Íslandi vera mjög góð þar sem að ég held ekki að það sé til verslun sem að uppfyllir þennan þjónustustandard.

Engin ummæli: