föstudagur, apríl 14, 2006

Daglegt amstur

Þá er hið daglega amstur byrjað hérna í Bangladess. Það er farið að koma smá regla á vinnuvikuna og frítíman. Mig vantar reyndar ennþá að finna líkamsræktarstöð þar sem að sú sem að er hérna í nágrenninu er frekar dýr og ég er ekki viss um að ég sé tilbúin til að borga 5000 ISK á mánuði. Það gengur líka nokkuð vel að halda reglulegum vinnutíma þar sem að mætt er kl. 9 og hætt kl. 18 en David er alltaf að segja mér að þetta sé mjög óvenjulegt hérna. Hann segir að það sé mjög oft verið að vinna langt fram á kvöld. Það á nú svo sem örugglega eftir að koma tímabil þar sem að ég þarf að vinna eitthvað aðeins meira en ég vona nú samt að það eigi eftir að vera undantekningin frekar en reglan.

Ég er svo sem líka búin að komast að því að mig vantar að finna eitthvað til að eiða frítímanum í. Ég var ekki búin að gera mér grein fyrir því hversu miklum tíma ég er búin að vera að eiða í lokaverkefnið fyrr en að ég kom hingað. Þá komst ég að því að ég hef í rauninni ekkert ákveðið til að dunda mér við á kvöldið þar sem að ég hef ekki haft þörf fyrir það síðastliðin mörg ár. Frá því að ég byrjaði að vinna hjá Groupcare hefur það bara verið lærdómurinn sem að hefur verið gerður á kvöldin og um helgar svo það hefur ekki verið tími fyrir mörg hobby-verkefni. Ég verð því núna að reyna að fara að finna mér eitthvað skemmtilegt að gera og kannski ætti ég að fara að athuga með eitthvað af þessum hugmyndum sem að ég hef verið að safna saman undanfarin ár þar sem að ég hef aldrei haft tíma til að kíkja nánar á þær. Ég þarf bara að finna út úr einhverju með internet svo að ég geti farið að sækja smá upplýsingar þar. Ég er reyndar byrjuð að æfa mig á gítar. Ég komst auðvitað að því að ég hef alvöru gítarkennara hérna svo nú er Ronny líka búin að fá nýtt verkefni, sem er auðvitað að kenna mér á gítar. Þetta gengur svo sem hægt, eins og svo sem við var að búast en ég er samt nokkuð duglega við að æfa mig svo kannski verð ég farin að geta spilað eitthvað smá eftir að mínir níu mánuðir hérna eru liðnir.

Ég er ennþá að upplifa endalaust af nýjum hlutum hérna. Í gær var einn í vinnunni sem að sagði okkur að hann var að fara að gifta sig á morgun. Þetta var svo sem ekki alveg alværu gifting þar sem að konan flytur ekki inn til fjölskyldu hans á morgun, svo maður getur kannski kallað þetta trúlofun og svo verður alvöru giftingin seinna með rosa veislu og þá fær hann að taka konuna sína heim með sér. Það er heldur ekki búið að vera að skipuleggja þessa trúlofun og giftingu lengi hjá þessum manni. Hann hefur í fyrsta lagi aldrei hitt heitkonu sína, bara séð mynd af henni og þetta var auðvitað eitthvað sem að foreldrar hans skipulögðu fyrir hann. Reyndar höfðu foreldrarnir boðið honum að velja sjálfur en það vildi hann ekki. Honum fannst að foreldara hans væru þeir sem að best gætu metið hvað væri gott fyrir hann. Mér finnst þetta auðvitað alveg rosalega undarlegt að hann hafi ekki tekið tækifærið og valið sér sjálfur konu þar sem að honum bauðst það en það er greinilegt að eins og fyrir þennan mann að honum finnst skipulögð hjónabönd vera það besta. Þetta gefur manni dálítið aðra sýna á skipulögð hjónabönd en það sem að maður heyrir alltaf hreynt í hinum vestræna heimi. Það er með þetta eins og allt annað að það er ekki hægt að sjá þetta frá einni hlið og það er í rauninni ekki hægt að segja að það sé neitt að þessu svo lengi sem að þetta er það sem að fólk velur og er ekki neitt út í.

Það er löng helgi hérna hjá okkur svo að ég fá frí á sunnudaginn líka svo það verður nægur tími til að slappa af. Jæja, þá held ég bara að ég endi á því að óska öllum gleðilegs Bangladessísks nýárs en það er sem sagt í dag sem að haldið er upp á það.

Engin ummæli: