sunnudagur, apríl 30, 2006

Hádegismatur

Það er boðið upp á hádegismat á skrifstofunni og þar kynnist ég í rauninni hvað fólk hérna borðar. Þetta er nú svo sem ekki matur sem að hægt er að hrópa húrra fyrir. Við erum oft að grínast með það að þeir kjúklingar (eða kannski eru þetta hænsn, það er ekki nokkur leið að vera viss) sem að eru notaðir í þessa rétti sem að við fáum hafa örugglega framið sjálfsmorð vegna hungurs. Þetta eru svo kjötlítil dýr að það tekur því ekki einu sinni að reyna að plokka kjötið af beinunum. Þetta þýðir að það sem að ég borða í hádeginu, þá daga sem að ég verð að sætta mig við matinn á skrifstofunni er hrísgrjón (sem að auðvitað fylgir með næstum öllum máltíðum hérna), eitthvað smá karrýsalat og síðan nokkrir bitar af kartöflum og karrýsósuna sem að kemur með greyið kjúklingnum. Það er svo sem verið að vinna í því að bæta úr þessu ástandi og það hjálpar mikið upp á hádegismatinn þegar að Milly (þjónustustúlkan) hefur haft tíma til að skera ávexti til að taka með í vinnunna. Þetta þýðir auðvitað að það gerist inn á milli að við hreynlega neyðumst til að fara út að borða í hádeginu til að geta haft orku það sem eftir er dagsins. Sem betur fer höfum við fundið alveg ágætis stað í 5 mínútna fjarlægð frá skrifstofunni svo að það er mjög (og kannski aðeins of) auðvelt að fara þangað og borða eitthvað alminnilegt í hádeginu. Núna er líka búið að kenna hjálparanum í vinnunni hvernig matur er hitaður í potti svo nú er ekkert því til fyrirstöðu að taka afgang með sér í vinnunna borða þá í hádeginu. Maturinn sem að Milly eldar hérna heima er að minnsta kosti 10 sinnum betri en maturinn á skrifstofunni og þá gildir einu þó að hann sé frá deginum áður.

Ég er núna að lesa æviminningar Halldórs afa. Ég hef reynt að lesa þær áður en mér hefur aldrei fyrir alvöru tekist að komast í gang. Núna gengur þetta hins vegar mjög vel og ég var að byrja á öðru bindi núna. Ég veit ekki hvað það er sem að gerir að ég ríf þetta svona í mig núna en kannski er það af því að mér finnst afi vera mikið hjá mér eins og er. Það getur verið að hann hafi verið smá áhyggjufullur út af þessu ævintýraferð minni til Bangladess og hafi ákveðið að halda betur auga með mér en venjulega. Ég verð nú að viðurkenna að þetta er frekar þurr lesning en það sem að gerir þetta áhugavert fyrir mig er að fræðast meira um afa minn og líka um ömmu. Það er, að mér finnst, alveg ótrúlega mikið af hlutum sem að afi hefur tekið sér fyrir hendur sem að ég hafði ekki hugmynd um. Það er líka gaman að lesa um þær skoðanir sem að afi hefur haft á hinum ýmsu samfélagsmálum og hvernig hann hefur tekið á þessum málum þegar að honum gafst tækifæri til.

Engin ummæli: