fimmtudagur, mars 30, 2006

Fyrstu kynni af Bangladess

Jæja, þá er komin tími til að láta heyra í sér héðan frá Bangladess. Það er nú ekki hægt að segja að ferðalagið hingað niður eftir hafi verið sérlega skemmtilegt. Þetta tók um 20 tíma og maður gerði svo sem ekki mikið annað en að sitja og horfa á Harry Potter og lesa smá. Þetta gekk hins vegar allt mjög vel og farangurinn komst meira að segja allur til skila.

Ég fór hingað niður eftir með tveimur strákum frá fyrirtækinu sem ég er að fara að stjórna verkefni fyrir. Þeir verða hérna í eina og hálfa viku í viðbót og á meðan þá bý ég bara að hótelinu eins og þeir og ég hef því ekki enn haft tækifæri á að æfa mig mikið á gítarinn þar sem að ég vil ekki fara að æra alla hótelgestina. Ég reikna hins vegar með að geta byrjað á fullu í gítarkennslu hjá Ronny þegar að ég flyt inn til hans þegar að þessi tveir strákar fara heim. Þá get ég líka farið að koma mér aðeins fyrir og svona svo það á eftir að verða mjög fínt að koma sér á smá venjulegri rútínu.

Lífið hérna er hins vegar nokkuð ljúft. Það er mjög gott að geta bara farið að hugsa í íslenskum krónum aftur því Thaka (gjaldmiðillinn hérna í Bangladess) og íslenska krónan eru nánast 1:1. Ég er svo líka búin að komast að því að bjór hérna er dýr og það getur matur líka alveg verið. Það er hins vegar mjög auðvelt að finna ódýran mat líka, jafnvel á alveg ágætis veitingastöðum.

Það var tekið alveg ágætlega á móti mér á afmælisdaginn. Ég fékk reyndar ekki köku þar sem að Ronny nennti ekki að baka fyrir mig en ég fékk hins vegar blóm frá skrifstofunni og við vorum nokkur sem að fengum okkur ágætis mat og nokkrar drikki á eftir svo að þetta var bara alveg ágætis dagur, sérstaklega miðað við aðstæður.

Ég er hins vegar líka að reyna smátt og smátt að venja mig á að það er fólk í vinnunni sem að færir mér vatn, té og allt annað sem að ég þarf á að halda. Það lá jú við að fólk fríkaði út þegar að ég mætti í vinnuna á þriðjudagin og fór niður á hnén til að reyna að koma tölvunni í samband undir skrifborðinu og hvað þá að maður stilli sjálfur upp sjávarpanum í fundarherberginu. Annars verð ég nú að segja að aðstaðan í vinnunni og svona ýmislegt er ekki eins skrítið eins og ég bjóst við. Fólkið sem að ég er að vinna með virðist vera mjög duglegt og það gengur alveg ágætlega að koma hlutunum til skila, að minnsta kosti fram að þessu. Ég hef heldur ekkert fundið fyrir því að séu einhver sérstök vandamál falin í því að vera hvít kona hérna í Bangladess. Fólk kíkir kannski dálítið á mann og svona en það er nú svo sem bara eins og maður sjálfur gerir ef að maður einhverja sem að líta dálítið öðruvísi út.

Þetta er sem sagt allt í lagi að minnsta kosti fram að þessu og síðan á maður vonandi bara eftir að sjá fleiri og fleiri athyglisverða hluti þegar fram líða stundir

Engin ummæli: