Magga systir og Harpa vinkona hennar voru í heimsókn hérna í Köben á síðustu helgi. Þetta var algjör kerlingaferð hjá þeim þar sem að lítið var gert annað en að versla og svo var nælt í smá næringu inn á milli til að geta verslað aðeins meira. Það var nú samt dálítið gaman að sjá svipinn á fólki þegar að við keyrðum troðfulla innkaupakerru út úr Fields og ég held nú líka að þær stöllur hafi verið alveg ágætlega sáttar við afrakstur fyrsta dagsins í Köben. Ég tók því nú svo sem rólega í þessu og lét þær bara einar um að fara niður á strik daginn eftir til að versla meira. Ég hitti þær nú reyndar seinnipartinn og reyndi að taka smá þátt í að finna sameiginlegar jólagjafir handa fjölskyldunni enda get ég nú ekki sagt að ég hafi tekið mikinn þátt í því undanfarin ár. Hápunktur heimsóknarinnar var nú samt að mínu mati að minnsta kosti á föstudagskvölið. Magga og Harpa voru svo heppnar að þær hitti á þá helgi þegar að jólabjórinn kemur á markaðinn hérna í Danmörk. Þetta er mjög merku viðburður hérna og fólk klæðir sig upp í jólaölshúfur og búninga og fjölmennir á krár og bari í miðbænum. Við fórum auðvitað á nældum okkur í einn jólabjór á einum yfirfullum barnum. Eftir að hafa hjálpað Möggu með að klára bjórinn hennar ákváðum við stelpurnar hins vegar að draga Hannes með okkur á kokteilbar þar sem Magga gat fengið drykki við hennar hæfi. Það var líka bara alveg ágætt á þeim stað þar sem að það var ekki neitt mikið af fólki og við gátum meira að segja fengið sæti svo við nutum þess bara að slappa af og gæða okkur á góðum drykkjum.
Annars er ósköp lítið að frétta héðan úr Köben, við fórum ekki á ball með Sálinni um síðustu helgi og ég gerði svo sem ekki mikið eftir að gestirnir fórum þar sem að ég ákváð að reyna að slappa af og losna við hóstann sem ég var búin að vera með. Planið virkaði svo sem ekki alveg þar sem að ég er enn með hósta og ég er meira að segja orðin svo örvæntingafull að ég er farin að íhuga að fara til læknis og sjá hvað hann segir um þetta.
miðvikudagur, nóvember 09, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli