Það er greinilega alveg geðveikt langt frá því að ég skrifaði síðast, en það er víst ekki mikið annað að gera þá núna en að drífa sig í að bæta úr því. Helstu fréttir héðan úr Köben og Danmörk er auðvitað að það er kominn nýr prins, það er nú dálítið síðan núna en litla krílinu tókst nú samt að taka upp megnið af fréttatímanum í dag. Ástæðan var sú að foreldrarnir voru að taka hann heim af sjúkrahúsinu í dag og ekki nóg með að það væri bein útsending frá þessum merkisatburði þá var þetta auðvitað líka endurtekið í öllum fréttatímum það sem eftir var (og er) dagsins. Það er að minnsta kosti á hreinu að danir eru ennþá alveg ágætlega hrifnir og jafnvel líka stoltir af konungsfjölskyldunni.
En nú yfir í allt aðra sálma. Ég tók sérstaklega eftir því um daginn þegar að hamfarirnar vegna fellibilanna tveggja sem riðu yfir Bandaríkin að ríkisstjórn Íslands veitti 31. milljón íslenskra króna til hjálparstarfa í þeim fylkjum sem urðu hvað verst úti. Ég verð nú bara að viðurkenna að mér fannst þetta eiginlega vera óþarfi þar sem að Bandaríkin eru með ríkustu löndunum í heiminum og hafa greinilega efni á því að halda úti mjög dýrum stríðsreksti í bæði Írak og Afganistan. Hins vegar finnst mér að það sé alveg sjálfsagt að koma meðborgunum sínum til aðstoðar þegar þeir þurfa á því að halda og því finnst mér nú alveg að það sé hægt að réttlæta þessa fjárhagsaðstoð til Bandaríkjanna. Það sem að fer hins vegar mjög mikið fyrir brjóstið á mér er að núna þegar að það eru 50.000 manns látnir í Pakistan, enn önnur hálf milljón manns sem ekki enn hefur fengið að sjá hinn minnsta vott af hjálpargögnum eftir að jarðskálftinn reið yfir þar fyrir rúmlega viku og líkalega margar milljónir manneskja sem eru án húsaskjóls nú þegar að veturinn er rétt handan við hornið og hvað gerir íslenska ríkisstjórnin þá. Hún setur auðvitað upp bros, tekur upp peningarveskið og ver heilum 18,5 milljónum til hjálparstarfs á þessu svæði. Mér finnst þetta mjög kaldhæðið þó að ég geri mér fullkomna grein fyrir að það sé líklega hægt að gera aðeins meira fyrir hverja krónu í Pakistan en í Bandaríkjunum þá er ekki hægt að líkja saman þeim náttúruhamförum sem að átt hafa sér stað, þeim skaða sem hefur orðið eða hvað þá heldur getu þessara tveggja landa til að glíma við þau vandamál sem fylgja svona hamförum. Ég held að allir geti gert sér grein fyrir að Bandaríkin standi mun betur að vígi. Það er nú líka ekki hægt að gera annað en að velta því fyrir sér hversu mun betur fjársöfnun pakistana hefði gengið ef að þeir hefðu haft menn eins og Bill Clinton og George Bush eldri sem forsvarsmenn. Mér finnst þess vegna alveg hræðilegt til þess að hugsa að meira að segja í sambandi við fjármagn til hjálparstarfs snýst allt um pólitík, vald og áhrif og þjáningar mannfólksins virðast alltaf lenda í 2,3,4,5 ... sæti.
miðvikudagur, október 19, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)

Engin ummæli:
Skrifa ummæli