mánudagur, september 26, 2005

Haustþreyta

Það ætti svo sem ekki að vera mikið um svoleiðist, þ.e.a.s. haustþreytu, hérna í Köben eins og er. Það er ekki einu sinni komið haustveður hjá okkur ennþá og búið að vera yfir 15 stiga hita og nokkuð bjart undanfarnar vikur. Það er nú samt búin að vera einhver þreyta í mér og ég er búin að vera að blunda mikið að undanförnu. Ég vona hins vegar að ég hafi náð að hvíla mig nóg um helgina, ég svaf meira heldur en að ég lærði, svo ég er vonandi úthvíld núna svo ég geti farið að taka aftur á í lærdómnum. Það var hins vegar Hannes sem að var duglegur um helgina. Hann byrjaði á því að fara að redda sér rabbabara til að geta búið til rabbabarasulut, sem að ég ætla að taka fram að fæst ekki í Danmörku. Eftir að hafa búið til þessa dýrindis sultu þurfti hins vegar auðvitað líka eitthvað að gera við hana og sunnudeginum var því eitt í að baka hjónabandssælu og vöfflur fyrir gestina. Þetta var sem sagt frekar róleg og heimilisleg helgi en samt ekki svo róleg að við vöktum til 3 við að spila Trivial Pursuit sem var mjög skemmtilegt en kannski ekki neitt rosa ævintýri.

Ég verð nú líka að mæla með einu grænmetisrétti sem að ég og Hannes vorum að prófa. Við keyptum nefnilega 5 kíló af kartöflum í búðinni um daginn af því að þetta var á svo rosalega góðu tilboði. Til þess að tryggja það að þetta myglaði ekki bara allt í ískápnum þurftum við hins vegar að finna einhvern rétt sem krafðist mjög mikils magns af kartöflum. Þetta var auðvitað að finna í grænmetisréttabókinni frá Hagkaupum og við vorum því með kartöflubuff í kvöldmat á föstudaginn og meðlætið var auðvitað ferkst salat, alveg geðveikt hollt hjá okkur. Ég, gikkurinn sjálfur, get hins vegar alveg mælt með þessum kartöflubuffum svo ef ykkur vantar hugmyndir að kvöldmat þá er þetta ein góð.

Ástæðan fyrir að ég er ekki búin að blogga lengi er að það hefur ekki verið neitt rosalega mikið að gerast annað en þetta venjulega daglega amstur. Ég vildi nú hins vegar rétt láta vita að ég væri enn á lífi en þetta verður hins vegar ekki lengra í bili.

Engin ummæli: