Þá er enn einni helgarferðinni lokið. Þessi átti sér nú reyndar stað fyrir rúmlega viku en ég hef greinilega bara verið löt við að skrifa að undanförnu. Við fórum að þessu sinni til Moskvu. Ég var mjög ánægð þegar að við fundum þennan ákvörðunarstað þar sem að mig hefur lengið langað til að fara til Rússlands og sá draumur minn hefur sem sagt ræst. Þetta var nú frekar stutt ferð hjá okkur, við fórum á föstudegi og komum aftur á mánudegi en gátum hins vegar eitt öllum laugardeginum og sunnudeginum í að skoða borgina. Þessi ferð byrjaði rosa vel hjá okkur, aðallega þó mér, þar sem að ég var greinilega ekki meira stressuð en svo yfir þjófnaði í Rússlandi að ég gleymdi töskunni minni með farsímanum og veskinu í leigubílnum sem að við tókum á hótelið. Ég fattaði þetta heldur ekki fyrr en að við vorum að skrá okkur inn á hótelið og þá var leigubílinn auðvitað löngu farinn. Þetta þýddi sem sagt að við þurftum að byrja á því að eyða klukkutíma í að hringja í farsímann minn og vona að leigubílstjórinn mundi svara svo að við gætu samið við hann um að skila töskunni aftur á hótelið. Þetta var líka dálítið upp á vona og óvon hvort að þetta mundi koma til baka án þessa að búið væri að afrita öll greiðslukortin og farsímakortið. Sem betur fer hafði ég skilið megnið af kortum og skilríkjum eftir heima, þar sem að maður hefur nú heyrt sögur af þjófnaði í Rússlandi, en eftir að við vorum búin að reyna að ná í leigubílstjórann í hálftíma ákvað ég til öryggis að loka kortinu mínu. Það ótrúlega gerðist svo að maðurinn svaraði loksins í farsímann en þar sem að hann talaði litla sem enga ensku þá gekk nú ansi brösulega að reyna að sannfæra hann um að skila töskunni til okkar. Hannes leisti það vandamál hins vegar með því að fá strákinn í móttökunni til að tala við leigubílstjórann fyrir okkur. Það var svo eftir að við vorum búin að býða á hótelinu í þrjá tíma að bílstjórinn byrtist með töskuna mína og allt sem að í henni átti að vera. Hannes þurfti nú hins vegar að borga honum fyrir aðra ferð frá flugvellinum og alla leið á hótelið en það borgaði sig nú samt í staðinn fyrir allt vesenið við að fá þessi skilríki aftur og kostnaðinn við að tína farsíma. Það er síðan kannski rétt að taka það fram að þetta var í eins skiptið sem að nokkuð að eignum okkar hvarf á meðan að á dvöl okkar í Moskvu stóð :)
Eftir þetta töldum við okkur auðvitað fær í flestan sjó og héldum ótrauð út á lestarstöð. Það gekk nú ekki betur en svo að við röltum smá fram og til baka um svæðið þangað til að við urðum að viðurkenna að við gætum að minnsta kosti ekki fundið þessa lestarstöð án betri leiðbeininga. Við fundum því hóp af móturhjólagæjum sem að við spurðum vegar. Það var auðvitað ekki nokkur sála í þeim hóp sem talaði alminnilega ensku en þeir skildu að við værum að fara á lestarstöðina og þar sem að einn þeirra var á leið þangað fengum við fylgd. Það voru alveg ævintýralegar samræður sem að við áttum við þennan mann á leiðinni. Við komumst að því að hann er hardware forritari og erað forrita fyrir eitthvað kínverskt fyrirtæki í sambandi við WiMAX (háhraða þráðlaust internetsamband). Honum fannst alveg geðveikt fyndið að við, aðallega Hannes þó, skildum hvað hann starfaði við og okkur fannst líka dálítið undarlegt að hitta svona manneskju einhverstaðar á götum Moskvu. Samtalað varð hins vegar ennþá athyglisverðara þegar að hann fór að segja okkur hvað hann hafði verið að starfa við áður en að hann fór að forrita. Þá vann hann sem sagt fyrir rússneska herinn að verkefni þar sem að verið var að reyna að búa til byssukúlur sem að innihéldu kjarnorkusprengjur. Þetta var geinilega einhver hálf geðveikur vísindamaður sem að við höfðum fundið þarna og okkur datt í hug að kannski hafi hann orðið fyrir aðeins of mikilli geislun um ævina.
Fyrsta kvöld okkur í Moskvu var sem sagt ágætlega viðburðaríkt en við náðum nú samt að eyða nokkrum rólegum tímum á göngu um miðbæinn áður en við þurftum að ná lestinni aftur á hótelið.
Restinni af tímanum eyddum við aðallega í að skoða hina ýmsu ferðamannastaði í Moskvu. Við fórum auðvitað á Rauða torgið þar sem við sáum Kreml, grafhýsi Lenins, Basil kirkjuna, GUM (sem var einskonar sovéskt kaupfélag í miðri Moskvu). Við löbbuðum síðan um miðbæinn og sáum fyrrverandi höfuðstöðvar KGB, sem að nú reyndar eru höfuðstöðvar FSB svo þeir breyttu nú víst ekki miklu öðru en nafninu. Við hliðinna á höfuðstöðvum FSB sáum við hins vegar byggingu sem að okkur fannst mun athyglisverðari þar sem að löggan bannaði okkur að taka myndir að þeirri byggingu. Það kom nú auðvitað ekki í veg fyrir að við tókum mynd en við höfum enn ekki komist að því hvað þessi bygging hýsir. Hvað meira sáum við... jú, alveg helling, leikhús, garða, minnismerki, lestarstöðvar og svo framvegis. Ég mæli með að þið kíkið á myndaalbúmið ef að þið viljið sjá alla merkilega staðina sem að við sáum í þessari ferð okkar. Eitt af því sem að mér fannst mjög merkilegt að sjá voru allar flottu neðanjarðarlestarstöðvarnar þarna. Í fyrsta lagi er neðanjarðarlestarkerfið þarna mjög stórt með yfir 150 stóðvar og 44 þessar stöðvar eru sérstaklega nefndar fyrir arkitektúr. Við sáum auðvitað aðeins brot af þessum stöðvum en þær voru skreyttar með marmara, lituðum gluggum, mósaík myndum, ótrúlegum höggmyndum og hinum ótrúlegust ljóskrónum. Það eiga víst að vera fleiri stóra ljósakrónum í lestarstöðvum Moskvuborgar en í Buckingham höll og marmarinn í þeim á að nægja til að klæða öll eldhús í heiminum. Ég veit nú ekki hvort þetta sé satt en að minnsta kosti sáum við nokkrar mikilfenglegar lestastöðvar þarna.
Við lentum nú svo sem ekki í neinum fleiri ævintýrum í Moskvu en það var nú samt dálítð spennandi hvort að við mundum ná fluginu okkar heim þar sem að við ákváðum að taka almenningssamgöngur út á flugvöll og við vorum ekki alveg viss hvort að við værum í réttum strætó og hvað þetta allt mundi taka langa tíma þar sem að það var enginn sem talaði ensku. Þetta hafðist þó allt á endanum og við komumst heil á höldnu heim.
Við erum líka búin að vera með gesti. Ásdís, systur Hannesar, kom í heimsókn með Snædísi, Daníel og Ísak svo ég fékk tækifæri til að sjá Ísak og passa smá og síðan gat ég leikið við Daníel og horft á alveg helling af teiknimyndir með honum. Ég verð nú að viðurkenna að mér fannst ganga alveg ótrúlega vel að það væru fimm til sex manneskjur hérna í íbúðinn í heila viku en ég skil nú samt ekki hvernig fólk getur lifað í þessum íbúðum með þrjú börn. Ég held bara að það mundi verða of mikið, að minnsta kosti fyrir mig, til lengdar.
Nú er hins vegar gestagangurinn hættur í bili og við vitum ekki til þess að það ætli neinn að láta sjá sig hérna hjá okkur í haust eða vetur svo við eigum örugglega næst eftir að hitta fjölskyldu og vini á Íslandi um jólin. Þar sem að Ásdís og fjölskylda fóru á föstudaginn vorum við nú búin að ákveða að eyða helginni í rólegheitunum. Það gerðum við líka að mestu leiti fyrir utan að við fórum að hjálpa Mikkel úr vinnunni með að flytja svo að mest allar laugardagurinn fór svo sem í það. Ég hafði síðan stór plön um að taka mig saman í andlitinu og læra á sunnudaginn en ég get nú svo sem ekki sagt að það hafi orðið mikið úr lærdómi og ég gerði meira af því að horfa á heimsmeistaramótið í frjálsum í og með að ég sat og kláraði að lesa 1984. Sem að ég verð að viðurkenna að er nokkuð góð bók. Þetta er ein af þeim bókum sem að fá mann til að velta hinum ýmsu hlutum fyrir sér og ég get leitt hugann aftur og aftur að hinum ýmsu hlutum sem eru nefndir í bókinni. Ég verð nú samt að segja að mér finnst Animal Farm, sem líka er eftir George Orwell, betri. Það getur verið að það sé af því að maður fær alveg frábæra innsýn í þá bók þegar að maður er með rússneskan kennara sem getur frætt mann um þær staðreyndir sem að bókin byggir á, sem er auðvitað kommonisminn í sovétríkunum. Það var að minnsta kosti að hluta til við lestur þeirrar bókar að áhugi minn á Rússlandi vaknaði svo þetta hangir kannski allt saman á einhvern hátt.
Þá held ég að þessari ritgerðarsmíði sé lokið í bili.
þriðjudagur, ágúst 16, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli