Það er svo sem ekki hægt að segja annað en að það hafi verið skemmtilegt á Íslandi yfir páskana. Við náðum nú ekki að gera einu sinni helminginn af því sem við ætluðum okkur en svona fer þetta hins vegar alltaf. Við náðum nú samt að gera alveg helling og skemmtum okkur mjög vel í faðmi fjölskyldnanna.
Hvað var svo það hélsta sem að við tókum okkur fyrir hendur, við fórum í heimsókn til Kjartans og Ingu Daggar. Þar fengum við auðvitað indælis kvöldmat og Hannes var mjög ánægður með að fá tækifæri til að sjá og fikta í nýja tölvudótinu hans Kjartans. Við fórum síðan daginn eftir í mikla kalkúnaleit og hnetuleit í Reykjavík sem að gaf okkur tækifæri til að fara og heimsækja Ingu, fyrrum nágranna okkar hérna í kollegíinu. Við fórum í heimsókn í búðina hennar, Frú fiðrildi, en þar var nú reyndar lokað þann daginn en við hittum hana bakdyramegin og fengum að skoða þessa rosalega kósí búð hjá henni. Hún hafði greinilega alveg nóg að gera þar sem að hún var að flytja og síðan var nóg að gera hjá henni í búðarrekstri. Við eiddum síðan megninu af næstu dögum í Borgarnesi þar sem að við gerðum allt frá því að skúra gólf, flytja húsgögn, baka smá-pizzur og búa til kalkúnafyllingar. Þetta var auðvitað allt gert fyrir fermingaveisluna hans Alla sem síðan var á skírdag. Ég held að við höfum bara skemmt okkur alveg ágætlega í fermingunni, meira að segja í kirkjunni. Athöfnin var nú eiginlega í hálfgerðri upplausn á tímabilum og maður gat eiginlega ekki annað en brosað yfir því þegar að farsímarnir voru að hringja og þegar að hálf kirkjan hreinlega þusti fram til að taka myndir af fermingarbörnunum um leið og presturinn hvarf á bak við kórinn. Veislan tókst líka mjög vel, maður fann það svo sem um kvöldið að öll hlaupin með matinn á háhæluðu skónnum sögðu til sín en mér gafst að minnsta kosti tækifæri til að hitta megnið af frændsystkinum mínum og heyra dálitlar fréttir af því hvað fólk er að gera þessa dagana. Hannes skellti sér svo í jeppaferð á föstudaginn langa en þar sem að ég nennti ekki með þá eyddi ég megninu af deginum með Alexander og við þræddum hina ýmsu rólóvelli í Borgarnesi. Ekki var deginum þó lokið og þegar að Hannes kom heim úr jeppaferð kom í ljós á Inga, systir hans, var búin að bjóða okkur í saltfisk. Þar sem að klukkan var nú rúmlega sex og við áttum eftir að taka saman föggur okkar og koma okkur upp á Skaga og þaðan í Hafnarfjörð var smá fartur á okkur þarna og við þustum af stað. Þegar við svo loksins komumst í saltfiskinn var hann mjög góður en gestgjafarnir og hinir gestirnir höfðu hins vegar gefist upp á að bíða eftir okkur og voru löngu búin að borða. Á laugardeginum var svo búið að skipuleggja fjölskylduferð í bæinn þar sem að ég átti jú afmæli þarna um sunnudaginn. Mamma, pabbi og við systkinin fórum í keilu og þar á eftir í hið nýuppgerða og flotta Þjóðminjasafn. Það var mjög gaman í keilu auðvitað en líka á þjóðminjasafninu og meira að segja Alexander þoldi við í þessa tvo tíma sem að það tók okkur að komast í gegnum safnið. Það var svo endað á því að fara létt út að borða það sem að ég fékk svo þessa fínustu afmælisgjöf :-) Páskadagur (afmælisdagurinn) var nú svo sem heldur ekkert rólegur þar sem að það þurfti auðvitað að fara í nokkrar heimsóknir, tertuboð og matarboð. Við vorum sem sagt alveg búin að borða á okkur gat þegar að þessum degi var lokið. Ferðin endaði svo með brunch hjá Eydísi og Þresti á morgni annars í páskum. Við heldum síðan sem leið lá út á flugvöll og skelltum okkur heim aftur til Köben.
Þó að það sé alltaf gott að komast til Íslands og hitta alla, þá er líka gott að komast heim aftur. Maður er auðvitað alltaf gestur þegar maður kemur til Íslands og maður getur orðið dálítið þreyttur á því að búa í ferðatösku. Ég veit nú samt ekki hvort að við eigum eftir að taka okkur mikla hvíld frá ferðalögum. Ég var nú eiginlega orðin dálítið örvæntingafull í dag þegar að ég sá fram á að við hefum ekkert skipulagt núna fram að næstu jólum. Ég fór því aðeins að kíkja á þetta og komst að því að það vill svo skemmtilega til að Hannes á afmæli á föstudeginum fyrir Hvítasunnu. Svo nú er málið að finna út úr því hvert verður hægt að fara þá löngu helgi.
miðvikudagur, mars 30, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)

Engin ummæli:
Skrifa ummæli