Ég var að bæta við, hérna á síðuna, tengli á heimsýðu eins frænda míns. Ég verð nú að viðurkenna að ég hef ekki fylgst of mikið með því sem að er gerast í lífi allra frændsystkina minna og það var því gaman að geta lesið um hvað Steini er að taka sér fyrir hendur núna og skoða myndir úr lífi hans. Ég vonast nú til að ég eigi eftir að hafa möguleika á því að spjalla við eitthvað af frændsystkinum mínum í fermingunni hjá Alla. Það er allt of langt síðan ég hef hitt flest fólkið og það eru komnir nokkrir nýir fjölskyldumeðlimir sem að ég hef aldrei séð.
Við höfum annars verið í því núna yfir helgina að reyna að gera klárt fyrir ferðalagið til Íslands. Það er m.a. búið að tæma út af myndavélinni og koma myndunum inn á myndaalbúmið okkar á netinu. Búið að þvo þvott, byrjað að tína saman hluti sem eiga að koma með til Íslands og búið að þrífa íbúðina svo Sigrún Dóra og fjölskylda geti verið í íbúðinni á meðan við erumm í páskafríi. Ég eyddi nú reyndar mestum deginum í dag að reyna að setja saman DVD disk með myndunum úr Ástralíuferðinni. Ég er að vonast til að tölvan verði svo búin að skella þessu öllum saman fyrir þriðjudaginn svo hægt verði að taka þetta með til Íslands og sýna þeim sem áhuga hafa á. Svo þið getið ímyndað ykkur hver gerði allt annað sem er á þessum lista. Magga systir var einmitt að stríða mér á því upp í sumarbústað að það væri nú alveg augljóst hver sæi um heimilisstörfin á heimilinu okkar, hún átti auðvitað við Hannes, þar sem að hún hafði greinilega ekki þótt mikið til um afrek mín við matseldina og önnur heimilisstörf í helgarferðinni. Ég var heldur ekkert að mótmæla þessu þar sem að þetta er alveg örugglega alveg rétt og mér finnst bara að Hannes standi sig mjög vel í þessum efnum. Það er algjör óþarfi að fara að eiga við kerfi sem að virkar, að minnsta kosti á meðan það er svona hagkvæmt fyrir mig :-)
mánudagur, mars 14, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)

Engin ummæli:
Skrifa ummæli