föstudagur, desember 17, 2004

Verslunaræði í Bangkok

Ég ætla að halda áfram með ferðasöguna þar sem að ég hætti síðast, þ.e.a.s. þegar að við vorum búin að keyra aftur út á ströndina með því að keyra yfir fjallagarðinn Great Dividing Range á Waterfall way. Við vorum enn á því að við nenntum ekki að keyra sömu leiðina meðfram ströndinni það sem eftir var niður til Sydney og við ákváðum því að halda aftur yfir fjallagarðinn til að komast aftur inn á New England Highway. Þessir ástralir eru alveg rosalega hugmyndasnauðir hvað nöfn varðar og næstum hvert einasta nafn er stolið frá Englandi fyrir utan þau sem hafa fengið að halda sér á frumbyggjamáli. Leiðin til baka yfir fjöllin var alveg jafn hlykkjótt en þetta var hins vegar miklu meiri sveitavegur sem að við vorum að keyra og þetta var mest allt malarvegur. Það hefði ekki verið mikið mál að ná sér í hina fínustu nautasteik á leiðinni þar sem að það voru kýr og kálfar út um allan veg og Hannesi tókst naumlega að forðast að keyra yfir kengúru og skjaldböku. Næsti dagur fór að miklu leiti í keyrslu þar sem að við vorum á leiðinni upp í Blue Mountains sem er einn af vinsælustu ferðamannastöðunum í nágrenni Sydney. Við ákváðum að splæsa smá lúxus á okkur þarna og fengum okkur rosalega fínt hótelherbergi með nuddpott og öllu og það verðu nú að viðurkennast að um kvöldið gerðum við lítið annað en bara hanga þarna í heitapottinum í herberginu okkar. Næsti dagur byrjaði nú ekkert rosalega vel þar sem að það var alveg rosalega skýað þarna uppi í fjöllunum og við héldum hreynlega að við mundum ekki sjá neitt af þessu frábæra landslagi sem að var búið að tjá okkur að væri þarna. Við ákváðum því að halda í skoðunarferð um dropasteinshella þarna í nágrenninu þar sem að við vorum sammála um að við þyrftum ekki gott skyggni til að geta notið þeirra. Þetta var alveg rosalega stór dropasteinshellir með neðanjarðará sem að við sáum þarna. Við vorum líka mjög ánægð þegar við komum út aftur því þá var búið að stytta upp og komið sólskin og gott skyggni. Við héldum því til baka og núna stoppuðum við á öllum útsýnisstöðum sem að við fundum til að geta virt fyrir okkur útsýnið og fjalllendið þarna sem að er mjög fallegt. Við sáum líka Systurnar þrjár sem að líkjast í raun dálítið Reynisdröngum við Vík í Mýrdal nema hvað þessar steinasúlur eru uppi í fjöllunum. Við löbbuðum líka út á þær en ákváðum hins vegar þegar að við vorum komin þangað að sleppa því að labba niður restina af stiganum sem að lá niður í dalinn þar sem að við vorum nógu uppgefin eftir þessi hlutfallslega fá þrep sem að við höfðum tekið nú þegar í þessum geðveikislega bratta stiga sem að lá alla leið niður. Þetta var nú svo sem endinn á þessu ferðalagi okkar frá Sydney til Brisbane og niður aftur. Við keyrðum bara hraðbrautina til Sydney þarna um kvöldið og komum okkur fyrir á hótelinu sem að við vorum á þessar síðustu þrjár nætur okkar í Ástralíu.

Við fengum strandarveðrið sem að við vorum að vonast eftir á meðan að við vorum í Sydney og við héldum því til Manley beach og lágum þar í móki einn daginn og skemmtum okkur við að synda í Kyrrahafinu. Það verður nú að viðurkennast að við vorum kannski aðeins of lengi á ströndinni og við brunnum smá og við vorum í því að bera á okkur Aloe Vera næstu dagana. Við fórum reyndar líka að skoða dýragarðinn hérna í Sydney sem að á víst að vera einn stærsti í heimi. Ég trúi því nú alveg þar sem að það tók okkur hreinlega heilan dag að labba um hann allan og það var alveg helling af dýrum þarna.

Við gerðum nú ekki mikið á mánudaginn þegar að við áttum flug til Bangkok og eyddum nú bara deginum í að labba um miðbæinn og síðan fórum við í bíó þegar að við nenntum ekki að labba meira. Við áttum flug um kvöldið og það tók nú alveg sinn tíma eins og venjulega að komast í gegnum allar raðirnar á flugvellinum og svo þurftum við líka að sitja í rúmlega klukkutíma í flugstöðinni í Melbourne þar sem að flugvélin millilenti þar. Flugið til Bangkok var nú ekki svo slæmt þar sem að við gátum sofið alveg helling. Þegar við komum til Bangkok byrjuðum við á því að finna hótelið okkar og koma okkur fyrir þar og síðan héldum við auðvitað niður í verslunarhverfið hérna í borginni. Það tók okkur smá tíma að átta okkur á aðstæðum og koma okkur út úr verslunarmiðstöðunum sem að hreinlega voru bara gerðar fyrir ferðamenn og finna markað þar sem að maður gat skemmt sér við að prútta um verðið þó að hlutirnir hafði aðeins kostað einn tíunda af því sem að þeira gera í Danmörk. Við gátum nú alveg fundið smá af dótið og fötum sem að okkur leist vel á og við erum nú aðallega farin að hafa áhyggjur af því hvort að við komum þessu öllu með okkur aftur til Danmerkur þar sem að við vorum með 10 kíló í yfirvikt þegar að við fórum frá Ástralíu, svo hver veit hvað það verður þegar að við höldum héðan frá Bangkok.

Í gær, sem að var miðvikudagur og annar dagur okkar hérna í Bangkok, fórum við í einkaskoðunarferð sem var prangað inn á okkur á flugvellinum (sem var ekki rétt þar sem við borguðum nú ekki nema 60 dkk fyrir hana!). Við fengum sem sagt leiðsögumann og einkabílstjóra og vorum keyrð um miðborgina og við fórum og skoðuðum þrjú búddatrúarhof hérna í borginni. Þetta voru alveg rosalega mikilfenglegar byggingar og búddalíkneski sem að við sáum og þetta var allt mjög fallega skreytt og byggt. Þar með talið sáum við 5.5 tonna Búddalíkneski úr hreinu gulli. Það var nú dálítið athyglisvert fara í svona einkaferð. Við fórum líka í klukkutíma sigling um Chao Phraya ánna sem að liggur í gegnum borgina og þar sáum við líka helling af hofum á árbakkanum og öðrum merkilegum byggingum. Það var hins vegar skemmtilegast að sigla um þann hluta árinnar þar sem að voru bara venjulega íbúðarhús og maður var hreynlega að velta því fyrir sér hvernig að þessi hús haldast saman og uppi standandi. Það var líka hellinga af fólki að sigla um ánna á litlu minna en einni spýtu og með aðra sem ár og það var að sigla á milli bátanna með ferðamennina og var að reyna að selja gos, vatn og ávexti. Við fengum líka að gefa fiskunum í ánni sem að voru nú alveg ágætlega stórir og það er víst dálítið af fólki sem að veiðir þarna í ánni. Ég verð nú að segja eins og er að ég mundi ekki vilja borða fisk sem að kæmi úr þessu vatni, það var nú ekkert sérstaklega hreint. Það var líka yndislegt að sjá vélarnar í bátunum því þetta voru engar bátavélar heldur bílvélar sem höfðu bara verið fjarlægðar í heilu lagi úr bílum og svo settar í bátana og soðið á þær stöng sem að snýr skrúfunni. Þessi skoðunarferð breyttist nú á endanum í dálitla verslunarferð þar sem að það var greinilega hluti af starfi þessa fólks að koma manni inn í búðir þar sem að maður gæti eitt smá peningum. Við vorum nú svo sem alveg sátt við að fara til klæðskera þar sem að við höfðum hugsað okkur að gera það hvort sem var og við fundum bæði snið og efni þarna sem að við vorum sátt við og eftir þónokkrar samningaviðræður náðist líka samkomulag um verðið. Við vorum nú farin að hafa áhyggjur af blessaða leiðsögumanninum okkar þar sem að hún beið eftir okkur allan tíman sem við eyddum þarna, og þetta voru alveg örugglega rúmlega tveir tímar sem að fóru í þetta í búðinni. Við höfðum hins vegar ekki eins mikinn áhuga á skartgripabúðunum sem að við vorum keyrð í og við hreynlega hálf hlupum í gegnum þær eftir að við vorum komin í gegnum svæðið þar sem að maður gat séð þegar að verið var að búa skartgripina til og slípa steinana.

Það er alveg ótrúlegt hversu ódýrt flest allt hérna er, það er sérstaklega hægt að borða og ferðast um fyrir hreinlega engan pening á evrópskan mælikvarða. Það er líka greinilegt að vinnuafl er mjög ódýrt hérna því hver einasta búð og veitingastaður sem að maður stígur fæti inn í hefur að minnsta kosti 4 sinnum meira starfsfólk en sams konar staður í Evrópu. Þjónustustigið er reyndar líka allt annað hérna og auðvitað líka öðruvísi og fólk er miklu ýtnara hérna. Það var eitt atvik sem var frekar fyndið þegar að við vorum að koma úr siglingunni þá var kona þarna á höfninni að reyna að selja mér veski, hún var alveg í andlitinu á mér að það var alveg sama hversu oft ég sagði nei við hana. Það var greinilega orð sem að hún skildi ekki, það lækkaði hins vegar alltaf verðið og það hrapið snarlega úr 450 baht og niður í 380 síðan í 250 og þegar að ég var hreinlega sest inn í bílinni og konan var líka komin hálf inn þá var verðið komið niður í 100 baht. Mig langaði nú hins vegar ekkert í svona veski svo ég held að konan hafi orðið fyrir dálitlum vonbrigðum þegar að ég lokaði bílhurðinni í andlitið á henni.

Við erum í dag á fimmtudeginum að fara í mátun hjá klæðskeranum og svo ætla ég að reyna að draga Hannes enn og aftur í verslunarferð :)

Engin ummæli: