Ég er að skrifa þetta á tölvuna mína í hótelherberginu okkar hérna í Sydney. Ég man auðvitað ekkert hvað ég skrifaði sýðast en ég er nokkuð viss um að það hafi verið áður en að Hannes kom. Þessi leti mín er þess vegna auðvitað öll Hannesi að kenna en er kannski að mestu leiti vegna þess að ég hef haft nóg annað að gera með Hannesi eftir að hann kom.
Ég gerði svo sem ekkert mikið ein í Sydney, ég labbaði bara smá um og kíkti á þessa helstu staði, þ.e.a.s. Óperuhúsið og Hafnarbrúnna. Ég hitti reyndar á göngu minni einn af skiftinemunum sem að ég þekki frá Perth. Þetta var frekar skrítið að rekast á hann þar sem að við vorum bara bæði á labbi um borgina. Samt skemmtileg tilviljun og við gátum eitt smá tíma saman. Þetta þýddi hins vegar að við þurftum að kveðjast aftur svo það var ekkert skemmtilegt.
Sunnudagurinn þegar að Hannes kom um kvöldið fór hreinlega bara í að bíða eftir honum og síðan hélt ég auðvitað út á flugvöll til að taka á móti honum. Það var alveg rosalega gott að sjá hann aftur og það var ósköp lítið gert annað en bara að kúra sig eins nálægt hvort öðru eins og hægt var og njóta þess að vera saman aftur eftir allan þennan tíma. Síðan að Hannes kom erum við hins vegar búin að vera að gera alveg helling og núna þegar að ég skrifa þetta þá man ég auðvitað ekki helminigin af því. Ég ætla hins vegar að reyna að rifa upp eitthvað af þessu.
Við eyddum mánudegi og þriðjudegi hérna í Sydney og við löbbuðum auðvitað um alla borgina og kíktum á alla helst staðina (aftur fyrir mig en þetta var miklu skemmtilegra með Hannesi svo að þetta var allt í lagi). Við fórum upp í hæstu bygginguna hérna í Sydney sem er hreinlega bara útsýnisturn og þar sem að veðrið var frekar gott þá sáum við eins langt og augað eigði. Þetta var rosalega fín byrjun á tímanum í Sydney þar sem að manni var bent á alla helstu staðina sem að eru athyglisverðir. Við fórum líka í Sædýrasafnið hérna í Sydney og þar voru auðvitað alveg risastórir hákarlar og skötur sem að hægt var að sjá. Ég held að það hafi eitthvað af þeim náðst á mynd svo vonandi þegar að við komum heim þá verður mögulegt að sjá eitthvað af þeim á myndaalbúminu okkar.
Á miðvikudaginn leigðum við okkur bíl og héldum með allt dótið okkar norður austurströndina. Ferðinni var heitið til Brisbane og áætlunun var nú frekar opin svo að við keyrðum bara og sáum það á leiðinni sem að vakti athygli okkar. Við sáum frekar flott landslag með allt frá margra kílómetra löngum ströndum til hárra fjalla og fossa. Við keyrðum þjóðveginn sem að liggur með ströndinni, Pacific Highway, og við fórum nú svo sem ekkert langt fyrsta daginn en þurftum samt að taka eina bílaferju yfir 20 metra breiða á í fyrsta þjóðgarðinum af mörgum sem að við heimsóttum. Við gistum í Newcastle fyrstu nóttina og lögðum af stað snemma næsta morgun til að koma okkur lengra norður. Veðrið lék ekki alveg við okkur í ferðinni þó að það hafi nú oftast verið þurrt þá var skýað og það var ekkert rosalega mikið útsýni yfir kyrrahafið. Við stoppuðum einmitt til þess að sjá það frá útsýnisstað í Port Macquarie. Við gistum með ógeðslega stórum kakkalakka í herberginu okkar um nóttina í Coffs Harbour og það var eiginlega ekkert skemmtilegt að vita af honum þarna undir rúminu en okkur tókst nú samt að sofa smá. Þarna löbbuðum við líka út á kletti við höfnina þar sem að flott útsýni var yfir bæinn, höfnina, ströndina og hafið. Við stoppuðum í Byron Bay þar sem að við skoðuðum þó nokkuð af bænum og strendurnar sem að eru þarna. Það var ein rosalega flott strönd þarna sem að er með vatni upp við gróðurlínuna og tréin hálf hanga yfir vatnið. Annars var það merkilegasta sem að við gerðum þarna var að labba út á austasta odda meginlands Ástralíu. Við gistum þessa nóttina á svæði sem að heitir Gold Cost sem er rosalegt ferðamannasvæði. Við gistum nú ekki í aðal ferðamannabænum sem að heitir Surfers Paradise en þar voru ekkert nema háhýsi sem að voru hótel og þetta leit út alveg eins og yfirfull sólarströnd á Spáni eða einhverju svoleiðis ferðamannastað. Við vorum að vonast til að við gætum farið á ströndina þarna og eitt einum degi í að slappa af en þar sem að það var heldur engin sól daginn eftir þá ákváðum við bara að halda áfram ferð okkar og halda til Brisbane. Við gistum þar eina nótt og við fengum alveg ógeðslega góða steik um kvöldið og við gátum nú eigilega ekki mikið hreyft okkur eftir það svo að við hálf ultum heim á hótelið aftur. Við vorum nú reyndar búin að eyða fyrri hlutanum af deginum í að labba um bæinn og kíkja á útimarkaðinn þarna. Við áttuðum okkur hins vegar ekki á því að það er eins klukkutíma munur á milli ríkjanna New South Wales og Queensland og við vorum til að byrja með hneyksluð á því hvað búðirnar þarna í Brisbane opnuðu seint en okkur var síðan bent á þetta. Þar sem að Brisbane var eins langt norður eins og við ætluðum þá var kominn tími til að halda suður á leið aftur. Við keyrðum af stað og reyndum að finna New England Highway sem að var leiðin sem að við ætluðum að aka í þessa áttina. Við nenntum að minnsta kosti ekki að fara sömu leiðina aftur og þessi vegur liggur líka innar og við sáum því allt annað landslag á þessari ferð okkar en á leiðinni norður. Þetta var mest fjöll og regnskógur og við keyrðum mjög mikið og skoðuðum regnskóginn hérna í New Sourth Wales sem að er allur í þjóðgarði núna. Frá þessum vegi keyrðum við einn daginn beint í austurátt, leið sem að heitir Waterfall Way og hún ber alveg nafn með rentu. Við eyddum heilum degi í að keyra þessa 200 km sem að þessi vegur er. Við stoppuðum hvað eftir annað til að skoða regnskóg, fossa og útsýnispunkta. Útsýnið var nú ekki mikið og við sáum að mestu leiti bara skýin enda var lágskýjað og við vorum i 1500 m hæð. Þennan daginn fengum við líka alveg geðveika rigningu og þrumuveður. Við sáum hinsvegar líka kengúrur og það var ein með lítið kengúrbarn í pokanum sínum og það var alveg rosalega sætt að sjá það. Það var nú líka misjafn hversu mikilfenglegir þessir fossar voru þar sem að það var nú ekkert rosalega mikið vatn í þessum ám sem að flæddu um svæðið og á sumum stöðum var nú lítið meira en mistur sem að maður sá. Við keyrðum líka alveg rosalegan fjallaveg til að komast aftur niður á ströndina og það var held ég bara heppni að ég varð ekki bílveik.
Ég er ekki búin með alla ferðasöguna en ég get ekki skrifað meira eins og er svo að restin verður bara að koma seinna. Við erum í Sydney núna og erum að vonast til að það verði gott veður á morgun til að við getum farið á ströndina.
sunnudagur, desember 12, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)

Engin ummæli:
Skrifa ummæli