sunnudagur, nóvember 21, 2004

Í síðasta sinn frá Perth

Það gekk bara ágætlega í þessum tveimur prófum sem að ég fór í og líka að stóra verkefninu sem að ég var að gera og kveið dálítið. En það gekk mun betur en ég hélt svo ég er nokkuð ánægð með það.

Þetta verður síðast bloggið mitt frá Perth að minnsta kosti í bili. Það er jú aldrei að vita hvort að maður komi einhverntíman aftur. Helgin er búin að fara í að skemmta sér með vinunum og líka að kveðja, sem ekki hefur verið eins skemmtilegt. Við ætlum að fara að fá okkur eina síðustu súkkulaðiköku seinna í dag. Ég er ekki enn búin að átta mig á því að mikið af þessu fólki sem að ég er búin að hitta nánast á hverjum degi síðastliðna fimm mánuði hitti ég kannski fyrst aftur eftir nokkur ár ef einhverntíman :-( Það er leitt að hugsa til þess en þessi dvöl mín hérna í Ástralíu verður víst einhverntíman að taka enda. Ég vona og trúi því líka að það sé góður tíu manna hópur hérna sem að eigi eftir að halda sambandi eftir að þessu öllu líkur.

Þetta er hins vegar auðvitað tíminn til að hugsa til baka og líta yfir hvað það er sem að stendur upp úr í þessari lífsreynslu. Mér finnst að ég sé komin ansi lang frá því að ég sat í flugvélinni á leiðinn hingað og var að velta því fyrir mér hvernig mér hafi dottið í hug að kasta mér út í þetta. Það eru búnir að vera bæði góðir og slæmir tímar hérna, eins og auðvitað annars staðar, en ég held að þessi dvöl mín hérna hafi kennt mér hversu mikla þörf ég hef fyrir að hafa fjölskyldur sem að ég maður veit að á eftir að styðja mann í gegnum súrt og sætt. Ég hef saknað Hannesar, pabba, mömmu, og systkinanna mikið á tímabilum en það hefur kennt mér að verðsetja það sem að ég hef. Það hafa ekki verið skólabækurnar sem hafa fært mér mikilvægustu kunnáttuna hérna heldur hefur það verið lífsreynslan sem felst í að takast á við nýja hluti algjörlega á eigin spýtur og öll þau mismunandi persónur og sýn á heiminn sem að ég hef haft tækifæri á að kynnast hérna í gegnum allt fólkið sem ég hef umgengist hér. Þetta er lífsreynsla sem að ég á eftir að muna eftir restina af lífinu og allar góðu minningarnar af vinunum og stöðunum sem að við heimsóttum, á ég eftir að halda upp á með hjálp myndanna og þessarar dagbókar og ég veit að þessar minningar eiga eftir að kalla fram mörg bros í framtíðinni.

Næsta blog kemur líklega frá Melbourne þar sem að ég á eftir að vera næstu fjóra daga. Það á víst að vera mjög gott að versla í Melbourne en eftir að ég sá hversu full ferðataskan mín er þrátt fyrir að ég hafi sent heil 7 kíló heim til Hannesar með póstinum þá held ég ekki að ég eigi eftir að geta verslað mikið.

Engin ummæli: