mánudagur, ágúst 09, 2004

Risa krókudíll

Ok, það er greinilega allt of langt síðan ég skrifaði síðast, Ég gerði mér bara ekki alveg grein fyrir því.

Það er sem sagt búið að vera nóg að gera, ég er búin, með fleira fólki auðvitað, að stofna klúbbi fyrir skiftinemana hérna og við erum að vinna í því núna að fá einhvern pening sem að við getum síðan gert eitthvað skemmtilegt með. Það er svo sem spurning hversu miklu við komum í verk en fólk var að minnsta kosti með nóg af hugmyndum svo það er bara spurning um að fara að vinna í þessu. Fyrsti alvöru fundurinn okkar er á morgun og þá ætlum við eitthvað að reyna að skipuleggja þetta betur. Annars er síðasta vika búin að lýða mjög hratt greinilega. Ég er reyndar búin að vera rosa duglega er meira að segja byrjuð að læra smá. Enda veitir svo sem ekki af ef eitthvað er að marka þann fjölda verkefna sem að á að skila í þessum blessaða skóla hérna.

Annars fór ég núna um helgina í mínar fyrstu alvöru skoðunarferðir um Ástralíu. Á föstudaginn fórum ég og Vanessa í dýragarðinn hérna í Perth. Það var reyndar mjög skemmtilegt fannst mér og ég gat fengið að klappa kengúrunum og allt. Reyndar fékk ég ekki að halda á kóalabirni svo ég verð að finna einhvern annan stað þar sem að ég fæ tækifæri á því. Annars vorum við mest uppteknar af því að skoða risa krókudílinn sem að var þarna. Það á vonandi eftir að koma mynd af honum inn á myndaalbúmið bráðum en þetta var stærðarinnar skeppna og eitthvað sem ég mundi ekki vilja hitta á labbinu. Annars skoðuðum við líka alla snákana og fengum nokkuð góðar upplýsingar um hvaða snáka maður gæti verið svo óheppinn að hitta hérna inni í Perth, það voru all nokkrir sem kunnum vel við sig í görðum og dimmum skotum hérna í borginni.

Á laugardaginn var svo haldið í alvöru skoðunarferð. Við fórum með helling af öðrum skiftinemum í rúti til Margaret River, sem er um 300 km sunnan við Perth. Þar fengum við að skoða alveg helling af stöðum, þeir voru nú misjafnlega áhugaverðir en þetta var súkkulaðiverksmiðja, bærinn sjálfur, frægar brimbrettastrendur og auðvitað vínframleiðsla og smökkun og síðast var haldið í dropasteinshella. Þessi staður er þekktur, að minnsta kosti hérna í Ástralíu, fyrir vínframleiðslu og við fórum að smakka á einum af vínbúgörðunum þarna. Vínið var nú alveg ágætt, reyndar var það svo sætt að meira að segja mér fannt beiska vínið betra en það sæta og þá er mikið sagt því ég elska allt sem er sætt. Annars var líka mjög gaman á ströndinni, það var reyndar alveg brjálað brim og ströndin var frekar klettótt svo ég gat nú ekki alveg ímyndað mér að það væri óhætt að vera á brimbrettum þarna. Okkur var síðan reyndar tjáð af einum brettastrák sem var þarna að þetta væri aðeins of mikið brim en venjulega væri þetta mjög gott. Þetta er nú víst samt dálítið hættulega strönd og það hafa einhverjir gæjar farist þarna við að skemmta sér á brettunum. Annars fannst mér nú eiginlega skemmtilegast í dropasteinshellinum. Hann var frekar stórbrotinn og það var ekki búið að eyðileggja hann algjörlega með ferðamannaiðnaði svo það voru bara mjóir stigar og óslettar tröppur sem maður þurfti að klöngrast yfir til að komast inn í hellinn.

Ég er annars búin að komast að því að skemmtanalífið hérna í Perth er ekki alveg það besta. Það eru ekkert sérlega margir skemmtilegar staðir hérna þar sem að mikið að stöðunum eru bara techno-diskó staðir þar sem að allir litlu krakkarnir hanga um helgar. Ég er reyndar búinn að finna einn góðan stað, The Mustang, sem er blanda af öllu mögulegu, það er lifandi tónlist, íþróttaleikir sýndir, hægt að spila pool og allt mögulegt svo það er að minnsta kosti hægt að eyða einhverjum góðum kvöldstundum þar.

Annars er næsta mál á dagskrá að fara að kaupa miða á leik í ástralska fótboltanum. Þau tvö lið sem að deila heimaleikvangi hérna í Perth eru nefnilega að fara að spila á móti hvort öðru eftir hálfan mánuð og ég reikna með að það verði góður leikur svo við erum nokkur sem að ætlum að reyna að næla okkur í miða.




Engin ummæli: