fimmtudagur, ágúst 12, 2004

Rigning

Það er alveg hræðilega leiðinlegt veður hérna núna, reyndar sérstaklega í gær. Það rigndi nánast allan daginn og það var líka ekki nein smá rigning. Ég hætti snarlega við að fara á hjólinu í skólann og ég fékk síðan bara far heim með einhverjum ástrala um kvöldið sem var mjög heppilegt því annars hefði ég ennþá verið að labba heim þegar að þrumuveðrir skall á.

Annars er ég frekar fúl yfir þessu með ástralska fótboltaleikinn sem að ég var að reyna að fá miða á. Ég vissi svo sem að þetta mundi vera mjög vinsæll leikur og örugglega uppselt á hann en ég reiknaði bara ekki með að það tæki bara 30 mínútur að selja alla miðana. Reyndar gátu allir sem voru meðlimir í þessum klúbbub keypt miða á mánudaginn og það hafa greinilega mjög margir nýtt sér það. Ég og Vanessa verður þá bara að finna okkur einhvern annan leik til að fara á.

Það er annars alveg nóg að gera í skólanum núna. Ég á að skila einhverju verkefni á mánudaginn og skilaði einu í gær. Ég verð bara að reyna að vera dugleg að læra á morgun þar sem að ég er að fara í einhverjar vatnaferð á laugardaginn. Ég ætla líka rétt að vona að veðrið verði orðið betra þá. Ég var reyndar að tala við nokkra ástrali í gær og við vorum að velta því fyrir okkur hvað það hlyti að vera rosalega leiðinlegt að vera veðurfréttamaður hérna. Á veturna er reyndar spurning um hvort að það eigi eftir að rigna eða ekki en hina 9 mánuðina þá er hitastigið það eina sem breytist.

Mér datt annars að nefna hérna eitt annað undarlegt samtal sem að ég er búin að eiga hérna í Ástralíu. Þetta var við strák sem að kom hingað á svipuðum tíma og ég og hann er líka að læra hérna en hann kemur frá Nígeríu. Við vorum sem sagt að fara í Go-kart og við vorum öll sest inn í bílinn og strákurinn sem er að keyra biður okkur um að setja á okkur öryggisbeltin. Strákurinn frá Nígeríu spyr þá hvort að það sé örugt. Ég er ekki alveg að fatta spurninguna þar sem að þetta snerist um öryggisbeltið og fór hann þá að útskýra fyrir mér að það væri mjög hættulegt að nota öryggisbelti í Nígeríu (þetta er alveg ógeðslega öfugsnúið). Þetta er hins vegar fullkomnlega skiljanlegt þegar maður fær að vita ástæðuna en hún er að það eru framin mjög mörg rán á bílum þarna þar sem að gæjarnir koma hlaupandi með byssu upp að bílstjórahurðinni og skipa fólki að stíga út úr bílunum. Vandamálið er hins vegar að þú getur ekki stigið út úr bílnum án þess að losa öryggisbeltið en ef að þú ferð að hreyfa þig til að gera það þá skjóta ræningjarnir þig því að allir þarna eru með byssur og þeir vilja ekki hætta á að þú sért að ná í þína. Svo öryggisbelti eru sem sagt ekki örugg í Nígeríu og reyndar heldur ekki umferðarljós. Fólk fylgir víst umferðarljósunum á daginn þar sem að þá eru göturnar nokkuð öruggar og löggan á ferli og svona en ef að þú ert að keyra eftir að fer að dimma þá ekurðu frekar yfir á rauðu heldur en að stoppa. Það eru sem sagt minni líkur á að það sé að koma bíll úr hinni áttinni en að þú verðir rændur ef að þú stoppar. Þetta er frekar undarlegt samfélag greinilega, mundi örugglega taka mann lengri tíma að venjast þessu en vinstriumferðinni hérna.


Engin ummæli: