þriðjudagur, júní 22, 2004

Loksins, loksins

Jæja, þá loksins hef ég mig í að fara að skrifa eitthvað aftur. Það er svo sem alveg frá nægu að segja núna. Póllandsferðin var mjög skemmtileg og ég ældi ekki neitt í siglingunni svo það var fínt. Það var nú svo sem ekkert rosalega austantjaldslegt þarna þó að það gæti verið af því að við vorum að ferðast mjög nálægt þýsku landamærunum og það var frekar mikið af þýskum ferðamönnum þarna. Verðið á öllu þarna var nú samt mjög hagstætt og það var hægt að fá geðveikt fínan mat fyrir lítinn pening (smá pása, england var að skora) svo ég mundi að minnsta kosti hiklaust mæla með þessu landi, hægt að gera fín jólagjafainnkaup þarna og alveg helling af gömlum byggingum að skoða.

Eftir þetta littla ferðalag tók við prófalestur hjá mér og sem betur fer tók ég mig saman og las að minnsta kosti nóg og það gekk bara alveg ágætlega í prófunum. Svo ég er núna búin að vera í sumarfríi að minnsta kosti frá skólanum í rúmlega viku og ég er alveg búin að njóta þess. Það er reyndar nóg að gera í vinnunni og ég verð að vinna nánast á fullu þangað til að ég fer til Ástralíu, sem er bara eftir tæplega mánuð núna :)

Annars voru pabbi, mamma og Alli í heimsókn um helgina. Það var reyndar frekar leiðinlegt veður hérna á meðan að þau voru (og reyndar búið að vera alveg ógeðslega lengi) svo við vorum nú líka dálítið innandyra til að forða okkur frá drukknum. Við fórum þá á laugardaginn til að sjá hin stóru 17. júní hátíðarhöld sem voru hérna. Það var alveg hellingur í gangi, blakkeppni, hljómsveitir, grillaðar SS pylsur og fleira. Alli var nú svo sem ekkert ánægður með að hanga bara þarna allan daginn en við fórum í Tívolí á sunnudeginum fyrir hann í staðinn.

Annars snýst lífið í Danmörk í dag og að minnsta kosti á morgun líka um fótbolta. Það eru allir að tala um það hvort að dönunum eigi eftir að takast að vinna blessaða svíjana á morgun í fótboltanum og þar af leiðandi komast áfram í EM. Það er líka ansi gaman að fylgjast með muninum á dönsku og sænsku sjónvarpsstöðvunum í þessari umfjöllun. Ég er að velta því fyrir mér hvor að ég eigi að hætta mér niður á Ráðhústorg á morgun þar sem að leikurinn verður sýndur á risaskjá svo að það verður örugglega rosalega stemming þar. Svo það verður ekkert annað að gera á morgun en að taka fram rauða og hvíta bolinn og vona það besta.

Engin ummæli: