laugardagur, júní 02, 2007

Létihaugur

Ég er greinilega búin að vera mjög löt í langan tíma og það sérstaklega við að skrifa hérna.

Það er því vissara að greina fyrst frá því að við erum komin aftur til Dhaka og höfum það auðvitað gott hérna. Það er reyndar sá tími ársins núna að við höldum okkur mest inni við enda 40 stiga hiti, 95% raki og sól hérna eins og er. Það er því nánast ólíft að ætla sér að labba þó ekki væri nema nokkur skref.

Ég er mest að njóta þess núna að slappa aðeins af eftir öll matarboðin og partýin í Danmörkinni. Félagslífið er ekki alveg það saman hérna í Dhaka þó að það hafði reyndar verið ýmislegt í gangi þessa vikuna. Við fórum á opnun nýs klúbbs hérna í nágrenninu á þriðjudaginn og fengum snert af ofnæmi fyrir ungum og ríkum bangladessum. Þetta fólk er ekki alveg með það á hreynu hvernig maður umgengst annað fólk og sýnir almenna kurteisi og tillitssemi. Tónlistin var líka aðeins of mikið techno fyrir okkur svo við fórum bara snemma heim og vorum sammála um að þetta væri ekki alveg staðurinn fyrir okkur.

Á fimtudaginn fengum við svo gesti. Eitt danskt par sem að nýlega er flutt til Dhaka kom í mat til okkur. Þau voru dálítið farin að sakna þess sem að þau kölluðu "venjulegs" félagsskaps og voru því mjög glöð að fá að koma og tala um hvernig þau hafa upplifað Bangladess síðastliðin mánuðinn eða svo. Þetta var mjög notarlegt kvöld og það er dálítið gaman að heyra að annað fólk upplifir að mörgu leiti sömu hlutina þegar það kemur hingað.

Það er líka búið að skipuleggja sumarfrí. Það verður löng dvöl á norrænum slóðum í þetta skiptið. Ferðinni er heitið til Danmerkur í ágúst og síðan til Íslands í september. Það er ekki búið að kaupa flugmiðana enn svo allar dagsetningar eru ekki alveg komnar á hreint en áætlunin á nú varla eftir að breitast mikið.

Engin ummæli: