þriðjudagur, september 12, 2006

Flóð á götum úti

Það rigndi svo mikið hérna í gær að það skapaðist ófremdarástand hérna í Dhaka. Þessi líka þvílíka rigning brast á um miðja nótt með þrumum og eldinum. Þrumurnar voru svo nálægt og háværar að ég vaknaði meira að segja þegar að þetta brast á. Það rigndi síðan allan morguninn og fram á miðjan dag. Holræsakerfið hérna í Dhaka réð hins vegar ekki við allt þetta vatn og allar götur voru hálf fullar af vatni og risa pollar út um allt. Til dæmis var þriggja akgreina vegurinn sem að við keyrum venjulega í vinnunna í gær aðeins ein akgrein þar sem að það var bara rétt miðjan af veginum sem að stóð upp úr vatnsflæminu. Ég hafði einhvernvegin búist við að fólk hérna ætti auðveldara með að höndla þetta ástand en ég síðan varð vitni að. Það endaði nefnilega með því að það mætti ekki nema kannski einn þriðji af starfsfólkinu í vinnuna. Þau sem að mættu höfðu líka öll eitt að minnsta kosti fimm til tíu sinnum meiri tíma í að komast í vinnuna í gær en venjulega. Einn úr hópnum mínum sem að venjulega er 10 - 15 mínútur á leiðinni í vinnunna þurfti í gær að eiða heilum 2 klukkustundum í hinum ýmsu farartækjum til að komast á leiðarenda. Öll umferðin fór sem sagt algjörlega úr skorðum við þetta. Vatnið er hins vegar að mestu leiti farið núna og göturnar eru aftur orðnar greiðfærar.

Það var síðan frí í vinnunni í dag. Þetta getur nú svo sem ekki talist frídagur þar sem að það var ákveðið í gær að færa vinnudaginn í dag fram á laugardag sem venjulega er helgarfrídagur. Ég skildi auðvitað ekkert í því hvernig að það væri bara hægt að færa vinnudag svona allt í eina en þetta er greinilega hægt hérna. Það eru víst einhver mótmæli í gangi í Dhaka í dag og þess vegna lokaði lögreglan nokkrum af helstu umferðaræðunum í borginni. Þetta þýddi að stór hluti af starfsfólkinu hefði átt í miklum erfiðleikum með að mæta í vinnu í dag svo vinnudagurinn var fluttur. Ég er auðvitað ekki sátt við þetta og þar sem að ég var búin að lofa mér í matarboð á laugardaginn þá fer ég auðvitað ekki í vinnuna þá. Ég hafði líka mestar áhyggjur af einum úr hópnum mínum sem að var búin að skipuleggja langa helgi þessa helgina þar sem að hann var að fara að heimsækja fjölskyldu sína. Ég sagði honum að hann skildi láta mig vita ef að hann þyrfti að nota auka frídag vegna þess að hann getur auðvitað ekki mætt á laugardaginn. Ég ætlaði þá að ganga í málið og tryggja að þetta yrði ekkert vandamál fyrir hann. Þetta heyrðist greinilega til hennar sem að er hægri hönd framkvæmdastjórans í fyrirtækinu. Hún mat það greinilega þannig að það væri best að reyna að ná í skottið á mér áður en að ég færi að vera með fleiri verkalýðsyfirlýsingar þarna. Hún lofaði mér hins vegar að minnsta kosti að þeir sem að ekki gætu mætt á laugardaginn vegna þess að þeir höfðu skipulagt eitthvað annað mundu ekki þurfa að taka það sem frídag. Ég verð síðan auðvitað bara að fylgja því eftir en ég held nú svo sem að það verið í lagi.

Mér finnst samt ennþá undarlegt að fólk hérna sætti sig bara við það að allt í einu þá er bara einn vinnudagur fluttur. Það sama er líka oft gert með frídaga og það er líka alltaf sagt daginn áður svo fólk hefur hreinlega engan tíma til að skipuleggja hlutina. Þetta er auðvitað bara mögulegt þar sem að fólk hérna er vant þessu og þeim finnst þetta bara vera hluti af vinnulífinu. Það vantar greinilega allan verkalýðsandan í þetta þjóðfélag hérna :)

Engin ummæli: