sunnudagur, september 10, 2006

Allt í stykkjatali

Það eru nokkrir hlutir sem að ég tek eftir núna í Bangladess eftir að hafa komið aftur úr sumarfríinu í Danmörku. Ég tók einmitt sérstaklega eftir því að hver einasta klósetrúlla í pakka af 8 rúllum er sérstaklega pökkuð inn í plast. Það fyrsta sem að ég hugsaði um var auðvitað að þetta er hræðilega misnotkun á plasti og umhverfisspillandi. Það er hins vegar góð ástæða fyrir þessu öllu en þetta er til að fólk geti keypt eina rúllu af klósettpappír. Þetta er nauðsynlegt þar sem að það er alveg helling af fólki sem að ekki hefur efni á því að kaupa 6 eða 8 rúllur. Þetta er líka gert með batterí, þau eru verðmerkt hvert og eitt.

Annars er lífið hérna í Bangladess að falla í fastar skorður og ég byrja að vinna á fullu aftur á morgun. Ég hef hins vegar tekið það rólega þessa helgina til að jafna mig á flugþreytunni og tímamuninum. Ég hef bara verið að spila billjard og leika mér smá í tölvunni.

Það er kannski líka komin tími til að ég skrifi smá um hvað ég var að gera á meðan ég var í Danmörku og hafði engan tíma til að skrifa. Það var dálítið mikið að gera hjá mér á meðan að ég var í Köben. Ég hélt að þetta yrði sambland af vinnu og frí en það var ekki mikið um frí hjá mér. Ég náði hins vegar að gera allt sem að ég þurfti og langaði að gera sem að auðvitað er það mikilvægasta.

Ég fór í helgarferð til Íslandis þar sem að ég náði að vera við skírn Nínu Bjarkar, hitta fjölskylduna og eiða helling af tíma með þeim. Það hittist líka svo vel á að ég náði að komast í fjölskyldugrill í Brautarholti svo ég náði að hitta mun fleiri en ég reiknaði með. Gerða var líka með ljósmyndasýningu og það var frábært að geta séð nokkrar af hinum frábæru myndum sem að hún heftur tekið.

Það var líka geðveikt mikið að gera síðust tvær vikurnar í Köben. Þá voru þrír frá Bangladess sem að ég vinn með í Danmörku og við vorum að vinna í hjá viðskiptavinunum alveg á fullu. Það var því mikið að gera í vinnunni og síðan þurfti ég auðvitað líka að eiða smá tíma með gestunum þremur og kynna þá fyrir smá af Danmörk. Tveir þeirra höfðu aldrei ferðast út fyrir Bangladess og sá síðast hafði heldur aldrei verið í Evrópu svo það var mjög mikið sem var nýtt fyrir þeim. Þeir kunnu nú hins vegar alveg ágætlega við sig og við buðum þeim heim í mat og síðan í keilu. Það var mjög gaman þar sem að það höfðu þeir líka aldrei prófa áður. Þetta var því held ég góð lífsreynsla fyrir þá en þeir söknuðu nú samt fjölskyldu sinnar á síðustu dögunum. Það var hins vegar danski maturinn sem að olli mestum vandræðum. Einn af Bangladessunum kunni reyndar alveg ágætlega við danska matinn, einn borðaði matinn þó að honum fyndist hann ekkert sérstaklega góður en sá þriðji borðaði nánast ekki neitt. Það endaði síðan með að hann var alltaf þreyttur og næstum veikur af því að hann hafði enga orku svo ég var farin að beyta uppeldisaðferðum á hann til að fá hann til að borða smá hádegisverð. Þeir hlógu dálítið að því hinir tveir Bangladessarnir þegar að ég sagði honum að við mundum ekki standa upp frá hádegisverðarborðinu fyrr en að hann væri búin að borða öll hrísgrjónin sín. Hann borðaði nú allan matinn sinn þann daginn, enda þorði hann ekki öðru þegar gribban Sigrún sat og fylgdist með honum.

Þegar ég var ekki að vinna eða með Bangladessunum var tímanum eitt með vinunum. Það var rosalega gaman að hitta allt fólkið aftur og eyða tíma með þeim. Við spiluðum billjard, borðuðum saman og drukkum nokkra bjóra. Þó að ég segi sjálf frá þá var ég nú samt mjög róleg í skemmtanadeildinni. Þar sem að ég hafði svo mikið að gera hafði ég ekki tíma til að vera þreytt eða með timburmenn næsta dag. Ég náði þó einu góðu skemmtanarkvöldi með gamla-Groupcare genginu og það var jafn spennandi og skemmtilegt eins og alltaf.

Þá held ég svo sem að aðal atriðin frá "fríinu" í Danmörku séu upptalin.

Engin ummæli: