Það er eiginlega alveg ótrúlegt hvað það tekur stuttan tíma að komast upp 55 hæðir í hraðri lyftu. Ég fór í dag upp í þessa byggingu sem að er sú hæðsta á suðurhveli jarðar. Útsýnispallurinn er á 55 hæð og þaðan getur maður séð yfir stóran hluta borgarinnar. Eina vandamálið í dag var að það var svo heitt svo það lá hitamistur yfir öll svo ég sá ekkert alveg rosalega langt. Gat hins vegar séð hvar ástralski formula 1 kappaksturinn er haldinn. Sá bygginguna sem að ég var alltaf að reka augun á í gær en fann aldrei og komst að því hvað hún er. Síðan er líka bara einhver skrítin tilfinning sem að fylgir því að vera að horfa niður af 55 hæð. Annars fór ég á enn eitt safnið í dag. Þarna voru hinar ýmsu sýningar í gangi en mér fannst athyglisverðast að sjá öll áströlsku dýrin og hinar ýmsu tegundir af kengúrum og wallabies. Fyrir utan það var þarna sérstök skordýrasýning og ég veit ekki alveg hvort að þið getið ímyndað ykkur hvað það felur í sér í Ástralíu. Það var heyrnlega þúsundir af mismunandi tegundum og sumar voru ekki beynt álitlegar. Mig langar ekkert að mæta sumum af þessum stóru kóngulóm. Og ég sá líka gull sem var 10.800.000 ástralskra dala virði á gengi dagsins í dag. Þetta voru sem sagt gullstangir sem að voru til sýnis í Gull safninu hérna.
Ég gerði nú líka eitthvað í gær, ég þarf bara að muna hvað. Jú, ég labbaði niður að Yarra ánni, sem að skilur að suður og norður hluta Melbourne. Þessa ganga mín sem að entist mest allan daginn tók mig framhjá helstu íþróttamannvirkjunum hérna í Melbourne, þar sem Australian Open tennismótið er haldið og þar sem ólympíleikarnir 1956 (að ég held) fóru fram. Síðan gekk ég um skrúðgarðinn sem var mjög fallegur og það var mjög afslappandi að labba um þarna. Nálægt garðinum er líka minnismerki fyrir þá sem féllu í seinni heimstyrjöldinni og ég þetta er mjög falleg bygging fannst mér og mér fannst þetta rosalega vel gert þar sem að aðal herbergið þarna er með pýramídlaga lofti þar sem að toppurinn er skorinn af og sólin skýn inn þarna og lýsir upp steintöfluna með áletrun sem að er í gólfinum. Eftir aðeins meiri göngu fór ég síðan í enn eitt listasafnið. Þetta er sá hluti Victory safnsins sem að hýsir list og fornmuni frá öðrum löndum. Þarna voru bæði fornmunir frá Egyptalandi en líka frá Suður-Ameríku og mér fannst þeir mjög áhugaverðir sérstaklega þar sem að ég hef aldrei séð neina fornmuni þaðan áður. Það var líka listverk þarna frá Kína og það var líka gaman að sjá eitthvað öðruvísi. Þó að það verði nú auðvitað að segjast að listaverk eftir ástralska frumbyggja eru líka öðruvísi.
Ég held að ég hafi munað eftir öllu en annars kemur það þá bara í ljós þegar að ég skoða myndirnar hvort að ég hafi gleymt einhverju. Ég hef hins vegar ekki hugmynd um hvað ég ætla að gera að morgun. Ég held að ég þurfi að eyða að minnsta kosti hluta af deginum innadyra þar sem að ég er smá rauð í andlitinu og á handleggjunum eftir að hafa verið svona mikið úti á göngu. Kanski ég fari og heimsæki Carlton bjórframleiðsluna (þetta eru þeir sem að framleiða Foster, sem að ekki nokkur maður drekkur í Ástralíu). Ég gæti þá borið þetta saman við ferðirnar um Carlsberg safnið, það gæti verið gaman.
fimmtudagur, nóvember 25, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)

Engin ummæli:
Skrifa ummæli