föstudagur, september 03, 2004

Frábært ferðalag

Það er svo geðveikt mikið að skrifa núna að ég hef eiginlega ekki hugmynd um hvar ég á að byrja. Ég komst að minnsta kosti lifandi heim úr útilegunni sem að er augljóst þar sem að ég er að skrifa þetta. Ég held hinsvegar bara að ég reyna að rekja þessa undanförnu daga hérna. Ég veit nú ekki hvort að nokkur maður eigi eftir að nenna að lesa þetta en það mun gera það auðveldara fyrir mig að muna hvað við gerðum og hvernig þetta allt var.

Ég ætla nú reyndar að byrja áður en að haldið var í útileguna þar sem að ég sat ekki einu sinni aðgerðarlaus á föstudaginn fyrir viku. Það var nefnilega verið að opna nýja ráðstefnuhöll hérna í Perth og það var ókeypis inn á sýningu um Vestur Ástralíu. Ég og Vanessa ákváðum því bara að skella okkur og sjá hvað væri í gangi þarna. Þetta er frekar stór ráðstefnuhöll og mjög fín og það voru nokkrir skemmtilegir básar þarna. Við vorum samt hrifnastar af hengistólunum sem voru þarna. Þetta er svipað og hengirúm en bara stóll í staðinn og þetta var alveg geðveikt þægilegt, væri frábært að hafa einn svona á svölunum heima í Danmörkinni. Við náðum líka að skaffa okkur sambönd hérna í borginni. Þannig er að þar sem að tímabilið í ástralska fótboltanum er búið og bara úrstlitakeppnin eftir þá verður ansi erfitt að skaffa miða á þá leiki sem eftir eru svo ég og Vanessa vorum eiginlega búnar að gefa upp vonina um að komast á leik. Við hittum síðan einhvern gæja þarna sem að var að vinna í Coca-Cola básnum og talið barst eitthvað að fótbolta og bróðir hans vinnur fyrir eitt af liðunum sem að er hérna í Perth og gæti því haft möguleika á að skaffa okkur miða og gæjinn gaf Vanessu númerið sitt svo núna er Vanessa sko með sambönd. Kannski eigum við eftir að komast á leik þrátt fyrir allt. Föstudagurinn var nú svo sem ekkert langur dagur þar sem að við vissum að við þyrftum að vakna snemma næsta morgun svo við skelltum okkur bara í bíó og sáum The Bourne Supremacy sem var svo sem bara enn ein bandarísk spennumynd og skildin nú ekkert mikið eftir.

Á laugardagsmorguninn hófst síðan ferðalagið, við urðum reyndar dálítið hissa þegar að við stigum upp í rútuna því þá voru þar fyrir 3 strákar sem að við þjekkum héðan úr skólanum og þeim hafði greinlega tekist að halda því algjörlega leindu fyrir okkur að þeir væru að fara í sömu ferð og við. Það var hins vegar mjög gott því á endanum þá vorum við 7 skiftinemar frá skólanum í þessari annars 13 manna ferð. Það var nú svo sem ekki mikið gert fyrstu klukkutímana annað en að sofa í rútinnu. Fyrsta stoppið okkar var síðan við Pinacles en það eru nafnið á helling af steinsúlum sem að standa upp úr sandinum vítt og breytt um Vestur Ástralíu. Við eiddum nú svo sem mikið af deginum í rútinnu en við stoppuðum líka í Kalbarri National Park. Við áttum að sofa í tjaldi um nóttina en þar sem að það var frekar kalt þá reddaði leiðsögumaðurinn rúmum fyrir okkur öll. Það var örugglega eins gott þar sem að það var meira að segja kalt í þessum óupphitaða skúr sem að við gistum í.

Næsta dag var aftur haldið af stað snemma og við fórum til Murchison River Gorge þar sem að við sáum rosalega flotta nátturu og fórum í skemmtilega og erfiða gönguferð niður að ánni. Það voru nú reyndar engir krókudílar þarna og það stoppaði nú samt ekki einn af ferðafélögum okkar í að reyna að hræða okkur með þeim. Við enduðum síðan daginn í Shark Bay þar sem að við gistum hjá Monkey Mia. Þar tókum við swaginn (þetta er nokkurskonar svefnpoki sem er vatnsheldur og hefur dýnu í botningum) okkar og svefnpoka og heldum svo niður á ströndina þar sem að við sváfum um nóttina. Það var frekar gaman að sofa á ströndinni og það var hægt að njóta fulla tunglsins og stjarnanna þar.

Næsta morgun fórum við svo aftur niður á stönd eftir morgunmat og fórum að sjá þegar að höfrungarnir voru fóðraðir. Það var svo sem allt í lagi að sjá þetta en það var þó skemmtilegast að fylgjast með tveimur kálfum sem að vora þarna og voru bara að synda um og leika sér. Næsta stopp var síðan skeljaströnd sem að við fengum okkur smá gönguferð á. Það var frekar flott að sjá þessa stærðarinnar strön sem er eingöngu gerð úr smáum skeljum. Restin af deginum fór nú aðallega í akstur þar sem að við þurftum að keyra alla leið til Coral Bay. Við komum nú reyndar þangað fyrir sólsetur svo við drifum okkur öll niður á strönd til að sjá sólina setjast yfir sjónum. Ég hef aldrei séð sólina hverfa beint niður í sjóin áður og það var flott að sjá litadýrðina sem að fylgir með.

Næsti dagur var mjög skemmtilegur, við höfðum nánast allan daginn í Coral Bay og gátum gert það sem að við vildum. Við keyptum okkur því ferð á fjórhjólum og fórum í 4 tíma ferð á þeim um svæðið, við keyrðum um og gáfum dálítið í á ströndunum. Við fórum líka að synda (snorkla) og leiðsögumaðurinn okkar fann fyrir okkur krossfiska, skjaldbökur og fleira sem að við gátum virt fyrir okkur á sundinu. Restinni af deginum eiddum við síðan á ströndinni og við gátum því líka slappað smá af. Um kvöldið var síðan haldið til Exmouth þar sem að við grilluðum og nutum síðast kvöldsins okkar saman þar sem að hluti af hópnum hélt áfram næsta morgun á meðan að við skiftinemarnir sem að þurfum að fara aftur í skólan vorum skilin eftir í Exmouth.

Við þurftum sem sagt að bjarga okkur sjálf þennan dag sem að við höfðum í Exmouth en það gekk nú sem sem alveg ágætlega. Við leigðum okkur bíla og snorkling græjur og heldum síðan af stað. Við skoðuðum vitann sem að stendur oddanum þarna og sáum hvar loftvarnarbyssurnar höfðu verið staðsettar í seinni heimstyrjöldinni. Exmouth var einn af bæjunum í Ástralíu sem að japanir gerðu loftárás á í seinni heimstyrjöldinni. Við nutum síðan líka bara dagsins á ströndinni og fórum og syntum smá og sáum meira af fiskum og humar og sitt lítið af hverju. Reyndar sáum við enga hákarla en bara hvali í fjarska. Þar sem að rútan sem að við áttum að taka aftur til Perth fór ekki fyrr en eitt um nótt þá fórum við út að borða um kvöldið þar sem að við eiddum eins miklum tíma og við gátum, við héldum svo yfir á barinn þar sem að við hengum þar til að okkur var hent út á miðnætti. Við lifðum nú svo sem alveg af að býða eftir rútunni fyrir utan ferðamannaskrifstofuna í klukkutíma en það var nú samt ekki neitt rosalega spennandi, sérstaklega þar sem að við vissum að það byði okkar 18 klukkutíma rútuferð til Perth.

Eitt af því sem að ég lærði í ferðinni er hins vegar að það sem að fólk hefur verið að segja og vara okkur við um að keyra eftir myrkur er stenst algjörlega. Fólk hefur nefnilega verið að segja okkur að það sé svo mikið að kengúrum og ég var alltaf að velta þessu fyrir mér því þegar að við vorum að keyra í björtu þá sáum við bara eina og eina kengúru á stangli. Þetta breyttist hins vegar allt þegar að við fórum að keyra í þessari rútu um nótt og þá sáum við hverja kengúruna á eftir annari og sumar þeirra voru greinilega í miklum sjálfsmorðshugleiðinum og einni tókst að nýta sér rútuna sem að við vorum í til að enda líf sitt. Það er ekki skrítið að allar rúturnar og vörubílarnir sem að keyra um hérna eru með sérstaka stálgrind að framan sem að kemur sér vel í svona tilfellum. Það er nú svo sem ekkert gaman að blessaðar kengúrurnar séu keyrðar niður en það er hins vegar alveg skiljanlegt þegar að það er svona mikið af þeim meðfram vegunum.

Þá held ég að ég sé búin að lýsa því helsta sem að hefur verið að gerast undanfarna viku.

Engin ummæli: