Það er alveg ótrúlegt hvað fólk getur verið mismunandi. Ég var bara að hugsa um þetta þar sem að konan sem að ég leigi hjá er í mínum augum að mörgu leiti alveg stór furðuleg og ég er að verða búin að fullkomna þann hæfileika að láta allt sem að hún segir koma inn um eitt eyrað og út um hitt. Stundum get ég ekki annað en dáðst að því hvað maður hefur í rauninni mikla aðlögunarhæfileika án þessa að gera sér grein fyrir því. Þetta gefur hins vegar mér og Vanessu eitthvað að tala um svo að við getum skemmt okkur yfir þessu, enda ekkert annað hægt að gera :-)
Ég er að lesa rosalega góða bók núna, hún heitir China Dawn og er um líf japanskrar konu sem fæðist um 1910 og síðan er henni fylgt í gegnum erfiðleika, heimstyrjöldina, velgengni, móðurhlutverk og svo framvegis. Það er eitthvað við þessa bók sem að heldur mér algjörlega hugfanginni og ég vaki núna alltaf til eitt eða tvö um nótt því ég gleymi mér algjörlega í lestrinum. Ég þarf reyndar að reyna að klára hana á morgun svo að ég þurfi ekki að býða eftir að koma heim úr sex daga ferðalagi til að fá að vita hvernig hún endar. Mér finnst eiginlega verst að geta ekki útskýrt hvað það er sem að gerir þessa bók svona rosalega góða en ætli ég verði ekki bara að sætta mig við það. Ég keypti þessa bók notaða og ætlaði að selja hana aftur þegar að ég væri búin að lesa hana, þar sem að þetta er 1000 síðna doðrantur og ég hef ekki einu sinni hugmynd um hvernig ég ætla að koma skólabókunum heim hvað þá einhverjum skáldsögum en það gæti vel farið svo að ég fórni þessu rándýru skólabókum fyrir þessa kilju.
Það er alltaf eitthvað nýtt að gerast og ég er að prófa alveg helling af hlutum hérna sem að ég mundi bara aldrei gera í Danmörk eða á Íslandi. Eitt af því er að fá mér einkaþjálfara en einn svona er ég að fara að hitta á morgun. Þetta er reyndar 3 tímar sem að ég fékk þegar að ég keypti aðgang að líkamsræktarstöðinni og þar sem að ég er búin að borga fyrir þetta þá get ég nýtt tækifærið og prófað. Ég held því auðvitað statt og stöðugt fram að ég hafi nokkra reynslu í því að æfa eftir að hafa gert það í 3 tíma á dag í 8 ár svo þetta á að minsta kosti eftir að vera athyglisvert. Ég veit ekki hvort að ég mundi frekar vilja fá einhvern hæfan þjálfara sem getur sagt mér eitthvað af viti eða einhvern gæja sem venjulega getur sagt fólki alla mögulega vitleysu og sem ég gæti þá örugglega slegið út af laginu og skemmt mér vel yfir. Þetta kemur hins vegar allt í ljós í fyrramálið.
fimmtudagur, ágúst 26, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)

Engin ummæli:
Skrifa ummæli